144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar.

[14:13]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Það er mjög undarlegt að fylgjast með því hvernig sömu aðilar halda því ýmist fram að allt of mikið eða allt of lítið sé sett í þetta. Þetta er allt í lausu lofti.

Hvað varðar spurninguna um skattlagningu fjármálafyrirtækja, nei, ég kannast ekki við að síðasta ríkisstjórn hafi ætlað að skattleggja (Gripið fram í.) slitabú fjármálafyrirtækja (Gripið fram í: Það er rangt.) til að koma til móts við almenning. Ég kannast hins vegar mjög vel við áhuga og eindregin áform síðustu ríkisstjórnar að skattleggja almenning til að koma til móts við fjármálafyrirtækin og kröfuhafana sérstaklega. Þá voru menn tilbúnir að ganga svo langt að bara vaxtakostnaðurinn sem alltaf hefði lent á ríkinu hefði numið ef ég man rétt 42 milljörðum. (Gripið fram í.) Það fjármagn hefði runnið úr landi og jafngildir um 80 milljarða … [Kliður í þingsal.]

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í þingsalnum. Hæstv. forsætisráðherra hefur orðið.)

Það er fjármagn sem hefði runnið úr landi og jafngildir notkun fjármagnsins um 80 milljörðum (Forseti hringir.) innan lands, þ.e. einum landspítala á (Forseti hringir.) ári.