144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ágætu yfirferð. Eins og hæstv. ráðherra fór vel yfir í upphafi er fjárlögum, samkvæmt fjárreiðulögum, ætlað að leita fjárheimilda vegna ófyrirséðra atvika, kjarasamninga og nýrrar löggjafar, en öðrum óskum um fjárheimildir skal vísað til afgreiðslu Alþingis á fjárlögum fyrir komandi ár. Ekki er gert ráð fyrir því að verið sé að stofna til nýrra verkefna. Þó eru nokkur dæmi um það í frumvarpinu. Eitt af því sem er alveg splunkunýtt verkefni, að því er mér virðist, er að lagt er til 50 millj. kr. framlag til uppbyggingar á iðnaðarsvæði við hafnarsvæðið í Bíldudal. Einnig er gert ráð fyrir 50 millj. kr. til verkefnisins í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna þetta nýja verkefni, nú þegar stutt er til áramóta, er í fjáraukalögum sem alls ekki eru hugsuð til þess að leita heimildar fyrir ný verkefni. Og af hverju þetta verkefni en ekki einhver önnur? Ég vil nefna framkvæmdir við viðlegukant við Helguvíkurhöfn sem á að byggja þar vegna kísilvers. Þar eru byrjaðar hafnarframkvæmdir um þessar mundir. Eins og alþjóð veit á Reykjanesbær í miklum fjárhagsvanda. Ef ríkið kæmi að þeirri framkvæmd væri það 180 millj. kr., eða 60% af heildarupphæðinni. Hvers vegna hafnarsvæðið og iðnaðarsvæðið í Bíldudal en ekki iðnaðarsvæðið í Helguvík? Má gera ráð fyrir fleiri nýjum verkefnum af þessum toga og jafnvel Helguvík á milli umræðna?