144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er mikilvægt að ræða um hlutverk fjáraukalaga í því samhengi sem hv. þingmaður gerir, ekki síst að skoða söguna og þau frávik sem hafa orðið í fjáraukalögum frá upphaflegri áætlun í gegnum tíðina. Í þessu fjáraukalagafrumvarpi er þeim frávikum haldið í algjöru lágmarki eins og hefur almennt verið reglan undanfarin ár, þó með einstaka frávikum. Áratuginn þar á undan var of mikið um að frávik eftir afgreiðslu fjáraukalaga væru allt of mikil, eða nærri 10%. Ég hef lagt áherslu á að halda frávikum í algjöru lágmarki.

Hér er gert að umtalsefni eitt tiltekið mál upp á 50 milljónir sem er þannig til komið að ef ekki hefði komið til loforð ríkisstjórnarinnar um að leggja til við þingið stuðning við það hefði tapast mikið tækifæri til þess að hrinda í framkvæmd byggingu á viðlegukantinum á Bíldudal. Það tækifæri opnaðist vegna annarra framkvæmda sem stóðu yfir á þessu ári og verða á inn á næsta ár. Framkvæmdin hefði með öðrum orðum orðið kostnaðarmeiri en verður með þessum stuðning. En það er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á að þetta er alltaf mikið álitamál. Þó þykir mér léttara verk að taka umræðu um ýmis einskiptisútgjaldamál en mál þar sem við sópum undir teppið umframútgjöldum innan fjárhagsársins án þess að (Forseti hringir.) fullnægjandi skýringar hafi verið gefnar af þeim sem þar bera ábyrgð.