144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:51]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst fyrst ástæða til að minnast á að mér finnst ekki til marks um góð vinnubrögð að leggja fram fjáraukalagafrumvarp og boða þá þegar mjög stórar og veigamiklar breytingar á því og að þær verði kynntar nokkrum dögum síðar. Mér finnst að það eigi að vera eðlilegt vinnulag að við fáum sem mest fullbúið frumvarp hingað inn.

Ein af stóru tíðindunum í þessu eru stórar einskiptisgreiðslur, eins og þær kallast, sem koma inn í ríkissjóð og breyta stöðunni allmikið. Þar má nefna og ber hæst að telja arðgreiðslur úr viðskiptabönkunum af þeim hlut sem ríkisvaldið á í. Lengi hefur legið fyrir að þessar greiðslur væru á leiðinni inn í ríkissjóð upp á nálægt þessa upphæð, 20 milljarða. Þetta er bara út af eignarhlut ríkisins í Landsbankanum.

Mig langar bara að eiga smásanngirnisumræðu hér við hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að við sögðum í Bjartri framtíð að það væri skynsamlegt að nota þá peninga sem væru væntanlegir í ríkissjóð í tvennt, greiða niður opinberar skuldir í samræmi við ríkisfjármálaáætlun og til fjárfestinga í atvinnutækifærum, í nýjum atvinnugreinum sem mundu í framtíðinni skila af sér meiri arði í ríkissjóð. Þegar hæstv. fjármálaráðherra blés af þessa fjárfestingaráætlun með framlagningu síns fyrsta fjárlagafrumvarps sagði hann ítrekað að fjárfestingaráætlunin væri ekki fjármögnuð. Er hæstv. fjármálaráðherra reiðubúinn að draga þau orð sín til baka í ljósi þess að hann trommar nú fram með nákvæmlega þá upphæð sem við sögðum allan tímann að ætti að nota til að fjármagna þessar aðgerðir?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort einhver greining hafi farið fram í ráðuneyti hans á því hvernig best væri að verja (Forseti hringir.) þessum peningum. Er hann reiðubúinn (Forseti hringir.) að útlista þá kosti og hvernig þeir koma út í samanburði hver við annan?