144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst að breytingu sem ég vék að í mínu máli, það er alveg laukrétt hjá hv. þingmanni að auðvitað færi best á því að þeim væri haldið í algjöru lágmarki. Vissulega reynum við að gera það. Það er tvennt sem ég nefndi sérstaklega, annars vegar á tekjuhliðinni. Eftir að fjáraukalagafrumvarpið var tilbúið og frágengið birtist álagning á lögaðila frá ríkisskattstjóra. Það gaf mér tilefni til að nefna í ræðu minni að við mættum eiga von á einhverjum breytingum á tekjuhliðinni vegna þess að niðurstaðan virðist vera sú að skatttekjur til ríkisins frá lögaðilum eru hærri en við gerðum ráð fyrir og er þess ekki getið í frumvarpinu eins og það liggur fyrir þinginu þar sem það var frágengið áður en álagningin var kláruð.

Hitt sem ég nefndi snýr að skuldaaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ég vék að því í máli mínu að rétt væri að taka þá umræðu þegar sú tillaga kemur fram.

Varðandi tekjuhliðina að öðru leyti og hvernig hún er hærri er það þannig með arðgreiðslurnar að áætlun í fjárlögum ársins er byggð á upplýsingum frá Bankasýslunni. Ráðuneytið vinnur málið þannig að það er óskað eftir upplýsingum frá Bankasýslu ríkisins um það hvers er að vænta í arðgreiðslum frá fjármálakerfinu á næsta ári. Þær upplýsingar eru teknar hráar og settar inn í fjárlagafrumvarpið. Þær voru svona frá Bankasýslunni eins og þær birtust í fjárlagafrumvarpinu og var ekki fyrirséð þess vegna, a.m.k. ekki af ráðuneytisins hálfu, að þær yrðu hærri. Eru þetta tekjurnar sem áttu að fara í fjárfestingaráætlunina? Ef ég man rétt var þar gert ráð fyrir sölu eignarhluta. Þar var gert ráð fyrir leigukvóta og einhverjum slíkum hlutum sem aldrei raungerðust. Síðan var einfaldlega önnur forgangsröðun hjá nýrri ríkisstjórn sem birtist meðal annars í tekjuskattsaðgerðum og öðrum slíkum hlutum, en að sumu leyti er þó (Forseti hringir.) gert ráð fyrir framlögum til dæmis til rannsókna og þróunar í samvinnu við Vísinda- og tækniráð (Forseti hringir.) sem eru í takt við fjárfestingaráætlunina (Forseti hringir.) sem þingmaðurinn vísar til.