144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að nefna að þetta fjáraukalagafrumvarp er nokkuð seint á ferð. Það er 11. nóvember í dag og eru þó boðaðar á því breytingar strax við 2. umr.

Ég vil í fyrsta lagi nefna við hæstv. fjármálaráðherra ófyrirséð útgjöld, liðinn 09-989. Þar er tekið frá vegna breyttra launaforsendna á árinu og látum það vera. Það má segja að sá liður sé hugsaður meðal annars í slíkt ef það víkur verulega frá hinu sem mátti vera fyrirsjáanlegt. Ég vil spyrja hvort ekki sé að vænta þar ráðstafana vegna eldgossins í Holuhrauni eða útgjalda sem eru farin að mælast í allmörgum hundruðum milljóna króna ef ég hef tekið rétt eftir. Ég sé ekkert um að fyrir því sé séð í frumvarpinu, það er þá væntanlega eitthvað sem við sjáum við 2. umr.

Í öðru lagi er það sem hæstv. ráðherra boðar hér að komi við 2. umr. og tengist skuldaniðurfærslunni margumtöluðu. Það er vísað sérstaklega til bættrar afkomu ríkisins í þeim efnum. Nú vill svo til að þessi bætta afkoma er nánast að öllu leyti óreglulegir liðir og það að hluta til bókhaldslegir liðir. Þess vegna hlýtur maður að spyrja hæstv. fjármálaráðherra samviskuspurningar: Hefur hæstv. fjármálaráðherra góða samvisku að koma hér og segja að vegna stórkostlegrar bættrar afkomu ríkisins eigi að hraða þessari aðgerð? Þýðir það ekki að ríkið gengur í enn ríkari ábyrgð fyrir þessari aðgerð, samanber þá fyrirvara sem hér voru slegnir af ýmsum, að ef til dæmis tekjustofninn brygðist mætti vinda ofan af aðgerðinni á síðari árum? Ég fæ ekki betur séð en að með þessu sé ríkið að taka enn þá meiri áhættu og gangast í enn ríkari ábyrgð fyrir allri aðgerðinni.

Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Verður Vegagerðinni bætt á næsta ári inn á framkvæmdaliðinn það sem hún er núna (Forseti hringir.) að færa yfir í viðhald? Þetta mun einfaldlega koma niður á framkvæmdagetu Vegagerðarinnar á næstu árum ef hún verður látin leysa þennan vanda (Forseti hringir.) á sinn eigin kostnað.