144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[15:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er þannig með útgjöld vegna eldgossins í Holuhrauni að við fjölluðum um það í ríkisstjórninni fyrir nokkrum dögum að veita þyrfti viðbótarfjárheimildir en á þeim tíma var þetta frumvarp fullfrágengið og þess vegna er ekki gert ráð fyrir þeim útgjöldum hér en þess má vænta fyrir 2. umr.

Varðandi tenginguna við skuldaaðgerðirnar erum við að tala um viðbætur sem hægt er að setja í þá aðgerð til að lágmarka vaxtakostnað og það allt án þess að ógna þeirri stöðu að við verðum með hallalaus fjárlög á þessu ári. Reyndar sýnist mér gróft á litið með öllum fyrirvörum að þrátt fyrir að sett yrði viðbótarfjármagn í fjárheimildir til skuldaaðgerðanna þá væri afkoma ríkissjóðs nálægt 20 milljörðum betri en við gerðum ráð fyrir á þessu ári.

Þetta eru sagðar einskiptistekjur að hluta til og að uppistöðu til en við erum líka með mun sterkari tekjustofna bæði eftir álagningu einstaklinga og lögaðila hér undir. Höfum þá líka í huga að á útgjaldahliðinni erum við að setja einskiptisframlög í þessa aðgerð.

Varðandi Vegagerðina þá þarf að auka svigrúm til framkvæmda í vegamálum, það er alveg rétt. Ég sé fyrir mér að eftir því sem ríkissjóði vex fiskur um hrygg sjáum við eftir uppfærða tekjuáætlun fyrir 2. umr. fjárlaga eitthvert aukið svigrúm umfram það sem við höfum talið okkur hafa á næsta ári (Forseti hringir.) til að fara í frekari framkvæmdir.