144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[15:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú þannig með undirritaðan, hvað sem aðrir kunna að halda, og þó að ég hafi mælt hér varnaðarorð, bæði á þingi á dögunum og núna, að ég gleðst á hverjum einasta degi yfir því sem gengur raunverulega betur hjá okkur, skárra væri það nú. Og ég geri að sjálfsögðu ekki lítið úr því að tekjustofnarnir eru að styrkjast, eins og maður batt alltaf vonir við, og þar með verður afkoma ríkis og sveitarfélaga traustari. En við eigum að vera raunsæ þegar við skoðum breytingarnar. Afkomubatinn mætti að mínu mati alveg vera meiri, þ.e. þegar kemur að raunverulegum undirliggjandi rekstri ríkisins, tekjum og gjöldum, að frátöldum óreglulegum liðum. Afkomubatinn gæti verið meiri ef hæstv. ráðherra og núverandi ríkisstjórn hefðu ekki veikt tekjugrunn ríkisins nú þegar.

Það er fagnaðarefni ef t.d. álagningin þýðir að það komi til minni endurgreiðslna gagnvart lögaðilum og raunverulegar skatttekjur frá þeim á þessu ári verði meiri en áætlað var. Það er líka gott merki úr atvinnulífinu að atvinnulífið sé þróttmeira og afkoma þess betri en menn áttu jafnvel von á.

Varðandi það að það sé þversögn að tala um útkomuna á ríkisreikningi 2013 — já og nei. Jú, vissulega var þar bókfærð aukin eign ríkisins í Landsbankanum, en það er eign sem er líkleg til að gefa af sér á komandi árum. Og hún var bókfærð á mjög lágu verði, sem ég veit að hæstv. fjármálaráðherra veit vel um. Hún var bókfærð á nafnverði hlutafjárins eins og ríkið greiddi það inn á sínum tíma þegar bankinn var stofnaður og það er langt undir raunvirði eiginfjárins í dag. Það má því alveg eins segja að það sé dulin eign sem hafi bæst við þegar ríkið fékk í sinn hlut án endurgjalds, án þess að borga eina krónu, 18% í Landsbankanum, og munar nú dálítið um þann glaðning. Fyrir þá sem hafa haft það að íþrótt hér að níða niður samningana milli gömlu og nýju bankanna þá gleyma þeir nú gjarnan því að (Forseti hringir.) samningarnir voru þó ekki verri en það að ríkið fékk gefins í þessum skilningi 18% eignarhlut í Landsbankanum.