144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[16:07]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að koma aðeins inn í þessa umræðu um fjáraukalagafrumvarpið. Þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið sagt í dag langar mig að taka þátt í umræðunni. Auðvitað kemur ekki á óvart að til að byrja með er í inngangi þess frumvarps sem hér liggur fyrir umfjöllun um aðgerðina er varðar skuldabréf ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands og 26 milljarða lækkun þess. Hér hefur verið mikil umræða um hana. Það er ekki óeðlilegt þar sem þetta er í sjálfu sér ófrágengið mál. Það kom ekki fram hjá hæstv. ráðherra hvort hann hygðist leggja fram frumvarp til laga til að þessi aðgerð gæti gengið í gegn með þeim hætti sem hér er lagt til. Því er í rauninni ekki hægt að samþykkja fjáraukalögin án þess að vita hvort hann hyggist gera það.

Auðvitað hafa verið óreglulegir liðir í tekjuöflun ríkissjóðs hér áður og verður örugglega síðar, en það eru ákveðin vonbrigði að afgangur á heildarjöfnuði skuli einungis verða 1,7 milljarðar þrátt fyrir allt. Ljóst er að við þurfum að halda vel á spöðunum áfram. Því veldur það vonbrigðum að það rými sem ríkisstjórnin telur sig hafa til þess að greiða niður skuldir einstaklinga verði ekki nýtt beint til að greiða niður lán ríkissjóðs eða í innviði samfélagsins.

Varðandi bréfið sem hér hefur verið rætt held ég að ástæða sé til að fara aðeins yfir það hvers vegna það var tekið. Það var gert til þess að bæta eiginfjárstöðu Seðlabankans á sínum tíma sem hefði orðið mjög neikvæð ef tapið hefði allt verið gjaldfært hjá honum, eins og kemur fram í minnisblaði sem minni hlutinn óskaði eftir frá Ríkisendurskoðun. Þessi mál hafa verið mjög mikið til umræðu, uppgjörið á þessu tiltekna bréfi, bæði skilmálabreytingin og kjörin. Þegar samið var í desember 2013 varð ljóst að lengja þurfti þennan gjaldfrest. Þá gerðu held ég flestir ráð fyrir því að það dygði ekki til sem varð svo raunin.

Frumvarpið sem ég vitnaði í var lagt fram á vorþinginu, um breytingar á lögum um Seðlabankann, bæði er varðaði eiginfjárviðmið og svo hvernig ætti að fara með hagnaðinn. Vert er að hafa í huga, hvað svo sem gert verður við þetta bréf, að það breytir því ekki að ríkissjóður er alltaf ábyrgur fyrir Seðlabankanum vegna eignarhaldsins á honum. Þess vegna skiptir máli hvernig við höldum á þessu máli. Það hefur heldur ekki komið fram af hverju ekki hafi tekist að semja um þetta.

Við hljótum að taka mark á því sem Ríkisendurskoðun segir, að ef greiða eigi meiri arð en eðlilegt getur talist þurfi að breyta þessu lagaákvæði. Við hljótum að ræða það í fjárlaganefnd þegar málið verður tekið fyrir þar.

Mig langaði aðeins að koma inn á það sem kemur fram á bls. 47–48. Þar er fjallað um að fjármunahreyfingarnar hafi í för með sér minna útstreymi úr ríkissjóði. Þar er t.d. tilgreind 1 milljarðs kr. minni lánveiting til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Ég velti því fyrir mér og kem til með að kalla eftir því í fjárlaganefnd hvað valdi því. Eru það stífari reglur eða standa virkilega færri umsækjendur að baki því að hér er 1 milljarður? Þetta er ekkert smámál miðað við það að í ársbyrjun kallaði háskólafólk eftir því að sjóðurinn fengi aukið fjármagn. Þetta er í hróplegu ósamræmi við það, finnst mér.

Því er ekki að neita að ég hef áhyggjur af því þegar staðan er ekki betri en hér kemur fram af eiginlegum rekstri ríkissjóðs. Það er samt sem áður gert ráð fyrir því að hér lækki áfram veiðigjöld og tryggingagjöld lækki ekki meira en sem nemur því litla sem skilar sér þó ekki til allra, eins og sú fjárhæð sem um ræðir í veiðigjöldum. Það kæmi sér betur fyrir alla að hitt yrði lækkað meira.

Mig langar líka að velta því upp hér að talað er um að atvinnuleysisbæturnar verði 1,1 milljarði kr. lægri á þessu ári. Það eru allir glaðir þegar atvinnuleysi minnkar en ég velti fyrir mér hvort það hafi raunverulega minnkað eða hvort bótarétturinn sé að hverfa, að það sé hluti af skýringunni, og sveitarfélögin taki þá á sig þann tilfallandi kostnað og í hvaða hlutfalli. Síðar í frumvarpinu, sem ég kem inn á á eftir, er talað um hækkun á endurhæfingarlífeyri sem tengist akkúrat þessu. Kannski er fólk að fara af bótum og yfir á endurhæfingarlífeyri. Það er í sjálfu sér allt í lagi ef fólk fær úrlausn sinna mála, hvort sem það nær sér á strik og kemst aftur til vinnu eða fær einhverja niðurstöðu tengda heilsu sinni að öðru leyti.

Ég verð að taka undir með fleirum sem hér hafa talað um fjáraukalögin og til hvers þau eru gerð. Ég held við séum öll sammála um það að við viljum hafa þau þannig að þau taki ekki til einhverra nýrra verkefna. Kannski tekur tíma að trappa sig niður í því að vera ekki með ný verkefni þar inni. Það verður samt að hafa í huga að ef það á að gerast í einhverjum áföngum þá hljótum við að þurfa að gæta einhvers jafnræðis í því hvaða nýju verkefni eru tekin inn og hver ekki, hvar hafa þau fengið umfjöllun, hver bað um þau o.s.frv. Það er ekki nógu gott að þeim sé skellt inn í fjáraukalög án þess að bein umræða hafi farið fram um þau í þinginu. Hér var nefnt mál um höfnina á Bíldudal. Það er vissulega gott verkefni og ég efast ekki um að það sé afar hagkvæmt að gera það akkúrat núna undir þessum kringumstæðum. Það breytir því samt ekki að við höfum ekki rætt það hér. Mér finnst það vera það sem skiptir máli í þessu.

Við höfum fengið ábendingu frá háskólarektorum á fundi fjárlaganefndar í síðustu viku. Þá var m.a. gerð grein fyrir því að Háskólinn á Akureyri óskaði eftir 30 millj. kr. framlagi sem hann telur að hafi verið mistök að hafi ekki verið sett inn á fjárlögin fyrir þetta ár þar sem sá skóli hefur staðið sig afskaplega vel í gegnum hrunið og skorið niður við trog, eins og flestar aðrar stofnanir. En hæstv. ráðherra talaði hér um að það mundi tapast tækifæri þegar Bíldudalur var nefndur þá er hér um að ræða rannsóknarstarf í Háskólanum á Akureyri sem voru skorin niður í kreppunni eftir hrun. Þetta er hluti af uppbyggingu landsins. Það felst mannauður í því að nema og geta hafið rannsóknarmissiri til þess að skólinn geti staðið undir sínu.

Ég vona að þegar við tökum málið fyrir í fjárlaganefnd verði fólk meðvitað um að samkvæmt textanum í frumvarpinu 2012, minnir mig, þegar þetta kom inn, átti þetta ekki að vera einskiptisaðgerð heldur til framtíðar til að bæta reksturinn. Ef við umbunum ekki stofnunum sem standa sig þá veit ég ekki alveg hvar við erum stödd, frekar en að umbuna eingöngu þeim sem ekki standa sig.

Ég verð líka að taka undir kostnaðarhlutdeildina. Við hljótum að vilja stefna á að fólk taki almennt minni þátt í sjúkrakostnaði en meiri. Því er miður að sjá það koma fram í frumvarpinu að taka eigi þennan 1,1 milljarð á næsta ári af sjúklingum sem þurfa á sérfræðiþjónustu að halda. Við hljótum að þurfa að fara í hina áttina hvernig svo sem við förum að því.

Mig langar að koma hérna aðeins inn á, af því að við erum að tala um óvænt útgjöld, 400 milljónir sem eru settar á styrkingar á rekstrargrunni framhaldsskóla. Það er ekki óvænt. Staða framhaldsskóla hefur legið fyrir lengi. Þetta snýst bara um það hversu mikla peninga ríkisstjórnin vill setja inn í kerfið.

Ég er ánægð að sjá á bls. 74 að Ríkisútvarpið fær 40 millj. kr. framlag til að greiða fyrir þjónustu norska fjarskiptafyrirtækisins Telenor út þetta ár. Ég vona að við fáum þann lið áfram í fjárlagafrumvarpinu sem koma skal því að þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þá sem eru á sjó og þá sem eru staddir erlendis og vilja fylgjast með því sem er að gerast hérna heima.

Það er líka gott að sjá á bls. 76 hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að framlagið sem mikið er búið að kalla eftir varðandi menningarsamningana skuli loksins vera tekið inn. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, eins og hefur komið fram, er nú í óttalegri vitleysu svo ekki sé meira sagt. Við tókum þetta mál fyrir í fjárlaganefnd síðsumars minnir mig þegar við höfðum fregnir af því að þegar væri farið að greiða út eftir þessu. Á sama tíma er t.d. ekki gert ráð fyrir auknu fjármagni í landvörslu eða aðra slíka hluti er varða innviði okkur og eftirlit. Það virðist vera svolítið tilviljanakennt, finnst mér alla vega, hvað er sett hér inn og ekki allt undir þeim formerkjum að um ófyrirséð útgjöld sé að ræða.

Ég tek undir það sem kom fram áðan um Vegagerðina. Við erum að tala um fjárfestingu sem við frestum ítrekað og varðar alla okkar innviði, vegina, velferðina, hvort sem það er Landspítalinn, önnur sjúkrahús, heilbrigðisstofnanir, skólar, ferðaþjónusta — öllu þessu erum við að fresta og nýtum fjármunina í að borga niður skuldir einstaklinga sem þurfa mismikið á því að halda. Mér finnst það alröng forsenda og forgangsröðun og skil eiginlega ekki hugsunina. Í staðinn fyrir að greina þann hóp sem þurfti á þessu að halda og fara í það tiltekna verkefni er allt gert fyrir alla, eins og einn þingmaður úr stjórnarliðinu hefur stundum sagt hér.

Virðulegi forseti. Það er ekki mikið eftir af tíma mínum. Mig langar að nefna það sem var aðeins komið inn á áðan varðandi að stofna einkahlutafélag til yfirtöku á starfsemi hjúkrunarheimilsins Sunnuhlíðar í Kópavogi til að sinna sambærilegri starfsemi. Þetta er 6. greinar heimild sem er verið að veita og mér finnst svolítið sérstök. Ég krefst þess að við ræðum hana í fjárlaganefnd. Eins fær fjármálaráðherra heimild samkvæmt 6. gr. að ganga til samninga um uppgjör á lífeyrisskuldbindingum vegna B-deildarinnar og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga vegna starfsemi sjálfseignarstofnana og félagasamtaka sem kostuð eru af ríkissjóði. Nú geri ég ráð fyrir því að hér sé um verulega miklar fjárhæðir að ræða en ég kem ekki auga á þessar fjárhæðir í fjáraukanum og ekki heldur í því sem ég hef lesið í fjárlagafrumvarpinu þannig að ég á von á því að formaður fjárlaganefndar, sem hefur mikið fjallað um lífeyrissjóðinn, og hv. varaformaður líka sjái til þess að þetta verði tekið og reiknað hvað hér er á bak við.

Virðulegi forseti. Ég held að ég láti þetta gott heita í 1. umr. Ég sé að þrátt fyrir að frumvarpið sé ekki stórt í sniðum þá eru hérna einhverjir annmarkar á sem falla ekki undir það sem held ég að flestir mundu vilja hafa. Á meðan svo er tel ég að við þurfum að gæta jafnræðis.