144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[16:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna því að fjáraukalagafrumvarpið er komið fram þótt seint sé. Eins og það lítur út í fljótu bragði virðist hafa náðst góður árangur í að bæta fjárhag ríkisins og þegar farið að ráðstafa þeim peningum sem þarna koma fram. Þegar betur er að gáð er auðvitað fyrst og fremst um að ræða óreglulegar arðgreiðslur sem bæta fjárhaginn, þ.e. þeir 48,3 milljarðar kr. vegna tekna sem koma af óreglulegum arðgreiðslum, þar á meðal um tæpir 20 milljarðar vegna bankanna og síðan breytingar á skuldabréfi sem er í rauninni aðeins millifærsla á milli Seðlabankans og ríkissjóðs um 26 milljarða kr.

Ég skoðaði frumvarpið þegar tilkynning barst um að það væri komið á netið og var tvennt sem mig langaði að skoða í fyrstu lotu. Það var annars vegar: Hvað er það í þessu fjáraukalagafrumvarpi sem hefur breyst fyrir tilstuðlan núverandi ríkisstjórnar? Það er svolítið forvitnilegt að velta því fyrir sér vegna þess að þegar maður fer að skoða til dæmis tekjuaukninguna sem varð hér á þessu tímabili, sem er um 11–12 milljarðar, er hún skýrð með bættri afkomu í fyrra, bættri þjóðhagsspá og einhverju fleiru, en það er hvergi hægt að vitna í eða sjá að það hafi orðið einhverjar breytingar sem beinlínis má rökstyðja með aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem hefur breyst frá því að nýja ríkisstjórnin tók við.

Ég ætla ekki að gera þetta að stórmáli enda skiptir það ekki máli. Það er augljóst að við erum á réttri leið og því fögnum við að betur gengur. Hitt sem ég fór og kíkti eftir strax var: Hvað fær Landspítalinn út úr þessum fjáraukalögum? Það verður að segjast alveg eins og er að mér brá þegar ég sá að skilaboðin hér eru að hann þurfi ekki neitt. Við vitum að það hefur komið neyðarkall frá Landspítalanum, það er frammúrakstur á þessu ári. Það hafa verið erfið viðfangsefni að glíma við, það er ebóla, viðvörunarteymi, það er frammúrakstur vegna ýmissa kostnaðarliða sem erfitt hefur verið að ráða við. Verið er að ræða að það verði niðurskurður á næsta ári. Ætla menn að senda spítalann með viðbótarhalla frá því sem var á síðasta ári yfir á nýtt ár með halla í þessum fjáraukalögum? Ég trúi ekki að svo verði, ég trúi ekki að skilaboðin verði þau þegar upp er staðið.

Það er ekkert brugðist við varðandi hugsanlega hækkun á launum lækna. Það er ekkert brugðist við til þess að hraða eða bæta við varðandi tækin. Það eru engin áform eða ávísun á það að nú sé óhætt að setja byggingu nýs spítala í gang, jafnvel þó að menn segi að tekin verði ákvörðun um það á þessu kjörtímabili og að framkvæmdir muni komast að einhverju leyti í gang hafa engar áætlanir verið lagðar fram hvað það varðar.

Það sem maður skoðar líka er hverju verið er að bæta við í menntamálum, mig langaði að skoða það. Það kemur fram að það er viðbót vegna framhaldsskólanna og ber að fagna því. Við getum skoðað betur hvað það þýðir. En það er til dæmis ekki sett inn fjárveiting til túlkaþjónustu þar sem vantar afskaplega litla upphæð í fljótu bragði en skiptir gríðarlega miklu máli. Árið 2005 var stofnaður sjóður sem átti að mæta félagslegri túlkun, þ.e. túlkun eða þjónustu við þá sem þurfa á túlkun að halda til þess að geta tekið þátt í athöfnum daglegs lífs, til þess að geta tekið þátt í félagsstarfi, til þess að geta farið í líkamsrækt eða tekið þátt í fundahöldum eða öðru slíku. Það voru settar í þetta 18,6 miljónir, sem menn héldu að mundi duga en því miður reyndist það ekki nóg og strax í byrjun október lá ljóst fyrir að það þyrfti viðbótarfjármagn. Það er ekki hér. Skilaboðin frá ráðherra eru að ekki eigi að bæta neinu við, þ.e. vegna hugsanlegra stjórnunarörðugleika í Samskiptamiðstöð, eða hvernig sem ráðherrann hæstv. skýrir það út, á þetta fólk að vera án þessara mannréttinda þrjá mánuði af árinu.

Þetta er ekki boðlegt á sama tíma og við erum að færa hér út úr fjárlögum til flýtiaðgerða í skuldaniðurfærslu um 20 milljarða. Ég treysti á að fjárlaganefnd gefi klár skilaboð um að hún ætli að leiðrétta þetta þannig að hægt sé að taka upp túlkaþjónustuna strax. Raunar óskaði ég eftir því að hv. allsherjar- og menntamálanefnd bókaði um þetta sérstaklega. Við því var ekki orðið en minni hlutinn bókaði engu að síður þar sem er krafist að þetta verði leiðrétt í snatri. Það eru þessar litlu tölur sem oft skipta sköpum fyrir marga einstaklinga. Það eru 200 einstaklingar sem nýta sér þessa þjónustu og það er ekki stórmannlegt að treysta sér ekki til að lagfæra þetta.

Það er gaman að skoða hvað það er í þessum fjáraukalögum sem gagnast heimilum landsins annað en þessi flýting á því að greiða bönkunum fyrir skuldamillifærsluna. Það breytir akkúrat engu fyrir almenning, nema þá hugsanlega ef menn spara vaxtakostnað.

Hvað af þessu gagnast fátækasta fólkinu og hvað gagnast öryrkjunum? Það er spurningar sem við eigum auðvitað að hafa sem mælikvarða. Ég geri mér alveg grein fyrir að hlutverk fjáraukalaga á að vera að leiðrétta það sem ekki var hægt að sjá fyrir en það er þegar komið fullt af atriðum sem hefði þurft að lagfæra og þegar svigrúmið eykst er full ástæða til þess að meta hvort ekki á að setja inn viðbótarfjármagn, innan einhverra skynsamlegra marka, einmitt til þess að bregðast við veikustu þáttunum í fjárlagafrumvarpinu.

Það er forvitnilegt að skoða að aukningar eru á ákveðnum þáttum. Það eru aukningar til sjúkratrygginga en þó er tekið sérstaklega fram að reikna megi með því að fjárþörfin hjá Sjúkratryggingum, ef ekki verður gripið til enn frekari aðgerða, verði 1,5 milljörðum hærri en gert er ráð fyrir í þessum fjáraukalögum. Þarna inni er viðbótarkostnaður vegna tannlækninga barna, það gagnast þeim börnum sem þær reglur gilda um. Það er eiginlega eina viðbótin, hitt eru sérstakar kerfisbreytingar.

Það er viðbótarkostnaður vegna sérgreinalækna en sá samningur var gerður í byrjun janúar. Það hefur verið rætt svolítið um þann samning og ég hlustaði á hæstv. heilbrigðisráðherra skýra þetta út. Það er rétt hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að eins og þetta þróaðist skiptir mjög miklu máli að gera þennan samning til þess að tryggja að sjúklingar verði ekki látnir greiða utan kerfis upphæðir beint í vasa sérgreinalækna. Það sem er athyglisverðast við þetta, og það hefur ekkert verið rætt, er að þegar samningur rann út á sínum tíma og menn fóru ekki í það að hafa greiðslurnar af sjúklingunum, þ.e. sjúkratryggingar greiða áfram, að vísu fasta upphæð eða eftir gömlu reglunum, þá hækkuðu sérgreinalæknarnir taxtana. Svo kemur ríkissjóður og samþykkir allt að 20% hækkun með magnaukningum á verðtryggingu, hækkun sem er bara viðurkenning á því að þessi sjálftaka þeirra fer beint inn í samninga. Það væri ekki erfitt að semja á Landspítalanum ef læknar þar gætu gert þetta með sama hætti þar, hækkað launagreiðslur sínar einhliða og síðan yrði ríkið að koma á eftir með fjármagn.

Það sem er athyglisvert í þessu, og ég verð að hrósa hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir það, er að þrátt fyrir samningurinn segi að þetta eigi ekki að þýða hækkanir á ríkissjóð hefur hann ekki sett reglugerð sem hækkar gjöldin hjá sjúklingunum. Þess vegna kostar þetta 1,1 milljarð til viðbótar í ár. En það stendur enn þá eftir í þessu frumvarpi lýsing á því og ég ætla að leyfa mér að lesa hana, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 61:

„Í forsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir að þessi reglugerð verði að fullu komin til framkvæmda þannig að ekki verði um að ræða umframútgjöld í sérfræðilækniskostnaði sjúkratrygginga vegna þessa á næsta ári.“

Gefið er alveg klárt út að ráðherra er víttur í þessu frumvarpi fyrir það sem hann hefur ekki gert núna og skyldaður til þess að gera það á næsta ári og hækka gjaldtökuna á sjúklingana. Ég ætla að vona að svo verði ekki og treysti á að svo verði ekki.

Það er athyglisvert að skoða vaxtabæturnar. Það er ein af fáum tölum sem lækka í fjáraukanum, vaxtabætur til heimilanna. Þá spyr maður: Bíddu nú við, aðgerðir stjórnvalda sem voru kynntar í gær voru ekki komnar til framkvæmda, af hverju lækka vaxtabæturnar? Það er af því að viðmiðunum var breytt og líka vegna þess að ástandið hafði batnað hvað varðar skuldastöðu. Þá bregðast menn ekki við með því að bæta við vaxtabæturnar til þess að hjálpa t.d. lakar settum heimilum betur. Nei, þeir skera þær niður um 600 milljónir í ár.

Barnabætur lækka um 300 milljónir. Hvað vorum við að ræða þegar fjárlögin voru afgreidd? Við vorum að ræða, og þá komu tillögur inn í fjárlagafrumvarpið, um að ríkisstjórnin ætlaði að lækka þær um svipaða upphæð. Þingheimur og almenningur í landinu, stéttarfélögin börðust gegn því að barnabætur yrðu lækkaðar vitandi að þetta er sá hópur sem á hvað mest undir högg að sækja í landinu, það eru barnafjölskyldur og ekki síst einstæðar mæður.

Hvað gerir ríkisstjórnin þá? Það er eins og það hafi aldrei skilist þegar það hefur verið gagnrýnt, m.a. ítrekað af hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, það eru launahækkanir inni í kjarasamningum, það eru launahækkanir inni í fjárlagafrumvarpinu, viðmið barnabótanna voru ekki færð upp í samræmi við þær hækkanir sem voru forsendur í frumvarpinu. Þannig nær ríkisstjórnin að lækka barnabætur um 300 milljónir, með því að breyta ekki viðmiðunum. Það eru færri sem fá barnabætur af því að launin þeirra hækkuðu, jafnvel aðeins um það sem búið var að semja um í kjarasamningum. Þannig skerða þeir og fara á svig við vilja Alþingis sem bætti við til þess að nota þessa peninga handa barnafólki.

Sama segi ég aftur. Af hverju bættu menn þá ekki í barnabætunar og breyttu reglunum þannig að þessir peningar nýttust þeim sem á þurfa að halda? Þarna er skorið niður um næstum milljarð á sama tíma og veiðigjöldin eru látin lækka um 1,5 milljarða í tekjuhlutanum. Það er allt á sömu bókina lært hvað varðar aðgerðir þessarar ríkisstjórnar, hvernig það er fært þarna á milli með þessum hætti.

Það er ánægjulegt að sjá í þessu frumvarpi að það átak sem farið var í af fyrri ríkisstjórn, jafnlaunaátakið, hefur tekist. Gerð var tilraun til þess að hífa upp ákveðnar stéttir í velferðarkerfinu sem ávallt sitja eftir, sérstaklega í samanburði við viðskiptalífið, sett var inn jafnlaunaátak. Það gilti fyrst eingöngu á heilbrigðisstofnunum, þ.e. á spítölum og heilbrigðisstofnunum úti um allt land. Það var óánægja með það hjá öldrunar- og endurhæfingarstofnunum. Hér í frumvarpinu eru 650 milljónir til þess að taka þessar stofnanir með. Ég fagna því.

Hitt skil ég ekki, þegar lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarheimila eða sjálfseignarstofnana eru teknar yfir af ríkinu með samningi upp á 2,3 milljarða, en hjúkrunarheimili á vegum sveitarfélaga skilin eftir. Sveitarfélögin bentu á þetta og höfðu samband við okkur og vöktu athygli á því, þau eru sum hver í vandræðum með rekstur vegna þess að daggjöldin eru of lág. Ég trúði þessu ekki, ég hélt að þetta væri misskilningur, en sveitarfélögin eru einhverra hluta vegna skilin eftir. Ég vona að það verði líka skoðað vegna þess að það lá alltaf fyrir þegar við vorum að glíma við yfirfærslu á málaflokknum, málefni aldraðra yfir til sveitarfélaga, að þetta yrði auðvitað að hreinsast út til þess að jafna stöðuna á milli heimila. Ég geri enga athugasemd við það þó að þetta sé fært á milli þarna en það vantar sveitarfélögin.

Það er líka athyglisvert að sjá eftirlaun Stjórnarráðsins. Ég veit ekki hvort ráðherrarnir eru inni í því, það er búið að breyta þeim lögum núna þannig að ráðherrar hafa engan forgang hvað varðar lífeyri eða annað, en þarna eru 2,3 milljarðar í leiðréttingu. Þarna eru tölurnar. Ég hef áhyggjur af þessu: Hvers vegna lækka menn vaxtabætur og barnabætur en taka ekki að fullu til hækkunar sjúkratrygginga, sleppa Landspítalanum og öðrum heilbrigðisstofnunum, ekkert til tækjakaupa eða viðbótarfjármagns þar en lækka veiðigjöld og síðan einhverjar formbreytingar aðrar?

Ég fagnaði því áðan að það komu ákveðnar upphæðir til framhaldsskólans. Ég skil ekki alveg hvernig menn geta séð að Íbúðalánasjóður þurfi ekki að standa við skuldbindingar sínar, það er allt óljóst með Íbúðalánasjóð. Og takið þið nú eftir, fyrir rúmu ári síðan þegar þessi ríkisstjórn tók við kvartaði hún og sagði að reikna yrði með tugum milljarða í Íbúðalánasjóð, sem mundi vera rekinn með halla. Það hafa engar ákvarðanir verið teknir um Íbúðalánasjóð. Eina sem hefur verið gert hjá Íbúðalánasjóði er að bjóða lán og reyna að keppa við hluta af markaðnum. Það sem hefur náttúrlega vakið alveg einstaka athygli þar er að Íbúðalánasjóður, sem er á vegum núverandi ríkisstjórnar eða í höndum ríkisins, stjórnað af pólitískum fulltrúum þeirra, býður eingöngu verðtryggð lán þrátt fyrir að fyrri ríkisstjórn hafi gefið lagaheimild og undirbúið það að hægt væri að bjóða óverðtryggð lán. Það er stundum langt á milli orða og athafna hjá hæstv. ríkisstjórn.

Það er auðvitað ástæða til að fagna því að hér er settur inn peningur til sérstaks saksóknara. Áformin um að henda þessu öllu út stóðust náttúrlega ekki, það var útilokað að skilja sérstakan saksóknara eftir án fjárveitinga til þess að fylgja eftir málum sínum þannig að ég fagna því að bætt er við og er ástæða til þess að fylgja því svo eftir að sérstakur saksóknari verði ekki veiktur frekar en aðrir, bæði dómsyfirvöld og eftirlitsaðilar í fjárlögum, þannig að menn geti sinnt hlutverki sínu.

Það sem vekur athygli mína er að skilaboðin hér eru að ekki þurfi meira til sjúkrahúsa, það þurfi lítið í viðbót til menntamála, því er vísað inn í framtíðina, engin varanleg svör. Við fögnum því að sjálfsögðu að ríkissjóður standi betur en hörmum þá forgangsröðun sem birtist hér.