144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[16:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að það fari að komast út í hina almennu umræðu að ástandið á þessu ári hefur leitt til þess að hlutur sjúklinga sem fara til sérfræðilækna hefur dregist verulega saman og ríkið hefur tekið mismuninn á sig. Gengið var út frá því þegar gerður var samningur við sérfræðilækna að gömul gjaldskrá yrði uppfærð. Það yrði þó gert þannig að raunbreyting fyrir sjúklinga yrði engin, það yrði engin hækkun á hlutdeild sjúklinganna borið saman við það sem var í samningsleysinu.

Er þá samningurinn ekki til hagsbóta fyrir sjúklinga? Jú, hann er til hagsbóta fyrir sjúklinga vegna þess að með samningnum skuldbinda læknar sig til þess að undirgangast reglugerðarvald ráðherrans og sett er þak á það hvað hægt er að innheimta frá sjúklingum í komugjöld og önnur gjöld sem læknar leggja á. En ég verð að viðurkenna, þótt ég sé að reyna að einfalda málið, að þetta er samt dálítið snúið vegna þess að í samningsleysinu gerði Hagstofan ekki neinar uppfærslur þrátt fyrir að sérfræðilæknar væru búnir að hækka gjaldskrár sínar. Þannig mældist það hvergi hjá Hagstofunni að komugjöld voru að hækka stórlega hjá sérfræðilæknum. Síðan þegar ný reglugerð kemur frá heilbrigðisráðherra á það að leiða til hækkunar á vísitölu vegna þess að þá er verið að bera saman við eldgamla gjaldskrá. Er það slæmt? Þetta er óheppilegt, en ef maður horfir á þetta út frá hag neytenda er það svo að tímabilið þar sem Hagstofan uppfærði ekki tölurnar nýttist til lægri skráningar á vísitölunni (Forseti hringir.) en efni stóðu til.

En það er rétt að meginniðurstaðan á að vera sú að (Forseti hringir.) kostnaðarhlutdeild sjúklinga á að vera sambærileg við það sem var á árinu 2013 (Forseti hringir.) og þeir njóta góðs af því að þak kemur á gjaldið.