144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[16:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var eingöngu að huga að hag sjúklinga. Ég var ekki að huga að því hvernig Hagstofan reiknaði út vísitölu eða guð má vita hvað sem hæstv. ráðherra fór yfir.

Í samningsleysinu, eins og hæstv. ráðherra fór mjög vandlega yfir, hækkaði hlutdeild sjúklinga. Það gerðist í samningsleysinu. Síðan er gerður samningur þar sem gert er ráð fyrir því að hlutdeild sjúklinga muni ekki lækka. Hún lækkar að vísu á árinu 2014 vegna þess að reglugerðin sem hæstv. heilbrigðisráðherra átti að leggja fram, samkvæmt þeim texta sem er í fjáraukalagafrumvarpinu, kemur ekki fram nema aðeins að hluta til um mitt ár. Sú hlutdeild náði ekki 100 milljónum, held ég. En á árinu 2015 á gjaldið að verða aftur eins og það var í samningsleysinu fyrir sjúklinga.

Ég verð fyrir miklum vonbrigðum hvað þetta varðar. Ég var satt að segja að vona að ég hefði skilið hæstv. ráðherra rétt fyrr í dag þegar mér fannst hann tala af miklum krafti fyrir því að greiðsluþátttaka sjúklinga hefði lækkað og ætti enn að vera lág. En svo er ekki, því miður, frú forseti.