144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[17:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að reyna að bregðast við nokkrum spurningum sem hv. þingmaður setur hér fram þótt ég hafi stuttan tíma í andsvari, en ég get ef til vill komið inn á einhverjar af þeim í ræðu minni sem ég hyggst flytja hér á eftir.

Þegar við ræðum um heildarjöfnuð ríkissjóðs og hann er til umræðu hér, sem er skiljanlegt þar sem hann er umtalsvert meiri á yfirstandandi ári en ráð var fyrir gert, fer það dálítið eftir árferðinu hvort þingmenn vilja taka óreglulegu liðina með eða ekki. Þannig hefði það ekkert verið sérstaklega spennandi árin 2009, 2010, 2011 og 2012 að taka óreglulegu liðina með vegna þess að á þeim árum leiddu þeir alltaf til verri afkomu ríkissjóðs. Árið 2013 var afkoman nokkuð betri með óreglulegum liðum og þá vildu þeir sem sátu í ríkisstjórn gjarnan hafa óreglulegu liðina með í umræðunum það ár, vegna þess að ríkisreikningur sýndi því sem næst jöfnuð, minni háttar halla. En árið 2014, sem við ræðum hér, finnst mönnum engin ástæða til að taka óreglulegu liðina með vegna þess að það sýnir betri heildarjöfnuð. Aðalatriðið finnst mér vera að við gerum okkur grein fyrir því í hverju munurinn liggur og að ljóst sé hverjar skýringar eru á þeim breytingum sem verða frá spá til endanlegrar útkomu.

Varðandi Landspítalann stefnir í að hann verði rekinn með halla á þessu ári. Það finnst mér ekki eiga að þýða sjálfkrafa fjárheimild í fjáraukalögum. Það verður að skoða hvert tilefnið er. Það væri ekki gott fordæmi fyrir aðrar ríkisstofnanir ef einstaka ríkisaðilar gætu gengið út frá því sem vísu að hallarekstur, það að fylgja ekki fjárheimildum ársins, leiddi sjálfkrafa til fjárheimildaraukningar í fjáraukalögum. (Forseti hringir.) Það vildi ég segja um Landspítalann. Ég get kannski komið inn á önnur mál, Vegagerðina og skólamálin, í seinna andsvari.