144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[17:12]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hæstv. ráðherra sagði í þessu andsvari við mig um aðhaldið á Landspítalanum undanfarin ár. Þetta var fordæmalaus staða hjá ríkissjóði. Ég held að allir hafi verið sammála því, sama hvort þeir studdu ríkisstjórnina eða ekki, voru í stjórn eða stjórnarandstöðu, að ganga þyrfti hart fram í fjármálum ríkisins og ná niður þeim mikla halla sem myndaðist við hrunið 2008. Það var gert af síðustu ríkisstjórn með blóði, svita og tárum, en það var alltaf meiningin, virðulegi forseti, að þegar færi að ganga betur, eins og núna þegar við sjáum tekjur vera að koma inn, yrði þessu skilað.

Það getur vel verið að ef við færum í útreikning á því sem skorið var niður hjá Landspítala á sínum tíma, á þessum erfiðleikaárum, og reiknuðum það upp til verðgildis í dag og drægjum frá það sem bætt var í á fjárlögum þessa árs, vanti enn þá þar inn. Ég hygg að svo sé. Þess vegna var það alltaf meining síðustu ríkisstjórnar og þeirra flokka sem mynduðu hana að þeim peningum yrði skilað inn til þessara grunnstoða þjóðfélagsins þegar hagur okkur færi að batna. Það er að gerast núna. Þess vegna vantar það að núverandi hæstv. ríkisstjórn taki sig til og bæti í, eins og fyrir árið 2014. Hæstv. ráðherra segir að það sé engin vá fyrir dyrum þótt spítalinn verði rekinn með halla þetta ár. Gott og vel, ef það eru samantekin ráð að leyfa honum að vera með ákveðinn halla og gera upp svoleiðis, en hæstv. ráðherra talar um árið 2015. Ég mun taka þátt í því við 2. umr. fjárlaga að ræða málið út frá því sem hæstv. ráðherra talaði um og hvetja til þess að fjárveitingar til Landspítalans verði auknar verulega fyrir árið 2015.