144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[17:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu hér í dag. Við höfum rætt um hlutverk fjáraukalaganna og við höfum rætt talsvert um tekjuspá og útgjaldaspá fyrir ríkissjóð. Mér sýnist að á útgjaldahliðinni séum við með niðurstöðu eða að það stefni í niðurstöðu þar sem sé býsna nálægt því sem við gerðum ráð fyrir við fjárlagagerðina. Hins vegar liggur fyrir að skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar geta aðeins breytt þeirri mynd, en við skulum hafa í huga í því sambandi að það er grundvallarmunur á einskiptisaðgerðum og varanlegum útgjaldatilefnum. Tökum þá umræðu við 2. umr. þessa máls.

Á tekjuhliðinni eru líka talsvert mikil frávik. Sem betur fer eru þau frekar af ánægjulegu tilefni, þ.e. það kemur meiri arður út úr fjármálakerfinu. Landsbankinn, sem eign ríkissjóðs, verður greinilega verðmætari og verðmætari með hverju árinu. Ef við veltum fyrir okkur hversu verðmætur bankinn er í hlutfalli við umfang fjárlaganna eða sem hlutfall af landsframleiðslu eða sem hlutfall af heildarskuldum ríkissjóðs sjáum við að þetta er gríðarlega stór og verðmæt eign, líka þegar borið er saman við það sem gerist og gengur annars staðar, þ.e. hvað ríki almennt halda á verðmætum eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum í þessu tilliti, sem hlutfall af heildarskuldum, sem heildarhlutfall af fjárlögum eða sem hlutfall af landsframleiðslu. Landsbankinn er ein allra stærsta fjármálaeign sem menn finna í samanburði við önnur lönd. Þar sem til þessarar eignar var í raun og veru stofnað með útgáfu skuldabréfa á sínum tíma hef ég talað fyrir því að við seldum hlut í bankanum til að greiða þessa skuld niður. Þetta er nú allt í tilefni af því að bankinn skilar miklum arði á þessu ári sem ég rek þetta og það bætir heildarafkomu ársins.

Aðrar færslur eins og tekjufærslan frá Seðlabankanum eru afleiðing af frumvarpi sem ég mun leggja fyrir þingið innan fárra sólarhringa. Það frumvarp þarf vissulega að afgreiðast ef fjáraukalagafrumvarpið á að standast hvað þann þáttinn snertir.

Við 2. umr. málsins verður líka rætt um nýlega álagningu á lögaðila sem mér sýnist að skili allt að 15 milljarða auknum tekjum. Við skulum sjá hvort það verða einhver önnur útgjaldatilefni sem draga úr þeim áhrifum, en það er ekki hægt að útiloka að á útgjaldahliðinni verði einhver tilefni sem muni leiða til þess að þrátt fyrir betri álagningu á lögaðila en við höfum gert ráð fyrir muni heildarafkoman ekki batna í samræmi við það. Það verður að bíða síns tíma að fá botn í það.

Það ánægjulega í þessu er að sá hlutur sem snýr að álagningu á lögaðila og reyndar einstaklinga líka, og ef því verður að skipta á aðra skatta eins og veltuskatta, eru tekjustofnar sem við vonumst til að haldi styrk sínum inn á næsta ár. Það er ekki gott að segja nákvæmlega með arðgreiðslurnar. Fjárlaganefnd ætti að kalla eftir upplýsingum um hvort menn hafi verið of varkárir í arðgreiðsluáætlun fyrir næsta ár, en að öðru leyti ættum við að geta haft væntingar um að sumir tekjustofnanna sem koma sterkari út núna í fjáraukanum muni fylgja okkur yfir á næsta ár og þá annaðhvort leiða til þess að afkoman gæti batnað enn frekar eða að við gætum ráðist í verkefni sem hér eru oft nefnd til sögunnar og gert það án þess að fórna markmiðinu um jákvæða heildarafkomu. (KLM: Áttu við Landspítalann?) Landspítalinn hlýtur að koma þar til skoðunar, t.d. sérstaklega það að ljúka fullhönnun á meðferðarkjarnanum sem er enn ólokið verkefni. Margir halda að það sé hægt að verja milljarðatugum í Landspítalann sisona, en staðreyndin er sú að fullhönnun er bara enn ekki tilbúin. Það er algjörlega óraunhæft að stíga svo stór skref.

Að öðru leyti erum við hér með fjáraukalagafrumvarp sem sýnir ört batnandi hag ríkissjóðs sem aftur hefur orðið ríkisstjórninni tilefni til þess að flýta skuldaaðgerðunum eins og margoft hefur verið rætt hér. Það hlýtur að vera fagnaðarefni fyrir okkur öll að áætlanir standast og gott betur. Það horfir til þess að skuldahlutföll ríkisins muni fara batnandi og að við getum fengið raunverulega viðspyrnu að nýju.

Okkar bíða verkefni víða. Við getum nefnt fyrir utan Landspítalann og heilbrigðismálin almennt frekari uppbyggingu innviða eins og í vegakerfinu, fjarskiptum víða um landið og skólamálum. Það er alveg augljóst að ekki er hægt að ganga nær skólakerfinu án þess að það bitni hreinlega á gæðum skólastarfsins. Það á bæði við á háskólastigi og framhaldsskólastigi.

Einstök önnur verkefni eins og í samgöngum, hvort sem eru ferjur eða þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna og annað slíkt, eru allt hlutir sem við höfum þurft að neita okkur um í langan tíma. Við þurfum að forgangsraða í þágu þessara mikilvægu innviðafjárfestingarverkefna á næstu árum og um leið sætta okkur við að við getum ekki gert þetta allt í einu. Það verður að vera í einhverjum eðlilegum takti þannig að við aukum ekki ríkisútgjöldin fram úr því sem landsframleiðslan vex og við höfum svigrúm til að gera og að við gerum eðlilegan greinarmun á varanlegum rekstrarútgjöldum og einskiptisfjárfestingarverkefnum sem eru dálítið af öðrum toga.

Mér finnst ánægjulegt að þetta fjáraukalagafrumvarp sé lagt fram með þeim hætti að við erum mjög hæfilega innan allra eðlilegra vikmarka. Það hefur aðeins verið rætt hér í dag að það er slæmt að þingið hefur oft lagt blessun sína yfir það að fjáraukinn sé notaður til að sópa upp alls konar verkefnum sem menn koma ekki fyrir í fjárlögum. Að mínu áliti er það ósiður í ríkisfjármálaframkvæmdinni, en það er ekki hægt að horfa fram hjá því að þingið hefur lagt blessun sína yfir það í gegnum tíðina með meirihlutasamþykkt. Oft og tíðum var svo sem ágætisafgangur á þeim árum, skuldastaðan góð og fjármunum varið í mikilvæg verkefni, en það er betri bragur á því að slíkum verkefnum sé frekar fleytt inn á næsta fjárlagaár. Ef við setjum þetta í samhengi við það sem við erum að gera hér í dag erum við að ræða þetta mál við 1. umr. þegar miður nóvember nálgast.

Það er óskaplega lítið tilefni til þess að sópa upp alls konar litlum og millistórum verkefnum sem menn höfðu ekki pláss fyrir í fjárlögunum inn í fjáraukann sem væntanlega verður ekki samþykktur fyrr en í desember. Þá lifa 20–30 dagar eftir af árinu til að stofna til þeirra útgjaldatilefna sem menn eru að ræða um. Það hlýtur að blasa við að þá er skynsamlegra að snúa sér að fjárlögum næsta árs og spyrja sig hvort það sé rými fyrir útgjaldatilefnin þar. Þetta er framkvæmd sem er í miklu betra samræmi við megintilgang fjáraukalaganna sem ég rakti strax í upphafi máls míns í dag.

Að öðru leyti ítreka ég þakkir fyrir fína og málefnalega umræðu hér í dag. Ég óska nefndinni góðs í störfum sínum og lýsi mig og ráðuneytið reiðubúið til þess að bregðast við hvers kyns fyrirspurnum sem munu mögulega koma upp í þinglegri meðferð.