144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

yfirskattanefnd o.fl.

363. mál
[17:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Nei, ég tel að það sé ekkert í málinu sem eigi að torvelda það að leita réttar síns í kerfinu. Í þessu sambandi er sjálfsagt að geta þess að á fyrstu vikum og mánuðum mínum í ráðuneytinu var talsvert um að ég fengi ábendingar um að bæta mætti stjórnsýslu skattamála á Íslandi. Það varð mér á endanum tilefni til þess að koma á fót þeim starfshóp sem skilaði skýrslunni sem ég vísaði til áðan. Það kom í ljós að í þeim stofnunum sem fara fyrir skattamálum á Íslandi var að finna fjölmargar góðar ábendingar um það hvernig við gætum gert hlutina með einfaldari hætti.

Það er í sjálfu sér viðvarandi verkefni að uppfæra lög og reglur þannig að við straumlínulögum kerfið sem mest við megum og gerum öllum einfaldara fyrir að lifa í því, starfa í því og vinna með því. Í þessu tilviki þótti sjálfsagt að nýta þann kraft sem er í yfirskattanefndinni til að þar væri mannskapurinn og þekkingin nýtt. Tollanefndina, sem hefur farið með tiltölulega fá mál á ári eins og ég rakti áðan, væri þá hægt að leggja niður.

Það kom til álita að endurnefna yfirskattanefnd en þegar ég hafði íhugað það fannst mér í sjálfu sér ekkert tilefni til þess.