144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

mælendaskrá í umræðu um störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Eins og hv. þingmaður vekur athygli á er í starfsreglum eða handbók sem forsetar hafa vikið að hvernig það skuli fara fram þegar menn kveðja sér hljóðs undir dagskrárliðnum um störf þingsins. Þar er vikið að því fyrirkomulagi sem var hér áður við lýði, sem var það að menn skráðu sig einungis á þingfundi inn í þessar umræður og þá var það svo að við þær aðstæður þegar margar hendur voru á lofti á sama tíma var gengið út frá því í þessari handbók að forseti raðaði á mælendaskrá þannig að þingflokkar skiptust á eftir föngum.

Nú vitum við að annað fyrirkomulag hefur gilt um nokkuð margra ára bil og forseti vill fullyrða að almennt talað hefur það fyrirkomulag, án frekari skipulagningar, gengið tiltölulega vel fyrir sig. Það eru auðvitað til einstök tilvik og dæmi þar sem ýmsir hafa ekki verið ánægðir með þá niðurstöðu sem varð við að hafa það fyrirkomulag en fyrirkomulagið gengur í rauninni út á það að fyrstur kemur fyrstur fær, það er einfaldlega raðað eftir því sem menn raða sér með þessum hætti inn á mælendaskrána.

Þessi mál hafa oftar en ekki verið rædd í forsætisnefnd en einnig á vettvangi þingflokksformanna. Niðurstaðan hefur verið sú að gera ekki tillögur um aðrar breytingar á þessu fyrirkomulagi en reyna frekar að beina þeim tilmælum til þingflokkanna að þeir reyni að greiða fyrir því að sem flest sjónarmið geti komist að og a.m.k. að heilu þingflokkarnir blokkeri ekki mælendaskrána að þessu leytinu.

Forseti tekur hins vegar vel í það að forsætisnefnd og þingflokksformenn fari yfir þessi mál á grundvelli reynslunnar. Eins og forseti nefndi hefur þetta fyrirkomulag, þar sem ekki er verið að setja frekari skorður við því á hvaða hátt menn kveðja sér hljóðs, í flestum tilvikum tekist prýðilega og þess vegna er það þannig að forseti hefur ekki talið ástæðu til þess að gera tilteknar breytingar.

Forseti vill nefna að það eru sjálfsagt álíka mörg tilvik um að ekki hafi verið full mælendaskrá undir þessum dagskrárlið eins og þau tilvik hafa verið þar sem vandamál hafa orðið af þessum sökum. Oftast er það svo að kannski á bilinu 16–18 hv. þingmenn hafa kvatt sér hljóðs og þá hefur það eingöngu verið þannig að röð þeirra sem kveðja sér hljóðs ræður mælendaskránni.