144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að einhverjir gleðjast yfir skuldaleiðréttingarmálum ríkisstjórnarinnar. Í sjálfu sér er það vel. Það segir okkur jafnframt að það eru til fjármunir, skattfé. Í hvað ætlum við að verja þessu skattfé? Við frestum til framtíðar uppbyggingu innviða, við frestum til framtíðar framhaldsskólakerfinu, háskólakerfinu, Landspítalanum og hvað það nú er. Þetta er tekið úr sameiginlegum sjóðum okkar. Það eru ekki hrægammar sem eru að borga, ríkissjóður er að lána, eins og ríkisstjórnin segir, fé. Ríkissjóður er ævinlega ábyrgur og það er ekkert í hendi með þessa fjármögnun.

Virðulegi forseti. Það er líka annað mál sem ber hér hæst í dag. Ákveðin tíðindi urðu í hinu svokallaða lekamáli í gær. Við höfum rætt það töluvert á þingi og ekki að ástæðulausu. Þetta snýst nefnilega um traust og ekki bara traust til þingsins. Þetta snýst um traust ráðherra gagnvart þinginu. Sá hluti málsins, þrátt fyrir játningu fyrrverandi aðstoðarmanns innanríkisráðherra er ráðherra ekki búin að sýna þinginu nægjanlega virðingu og hefur ekki sagt því satt allan tímann. Vonandi leiðir niðurstaða umboðsmanns Alþingis það í ljós að svo hefur ekki verið.

Þessi játning í gær er ekki trúverðug, því miður. Fyrir mér blasir það að minnsta kosti við að það er ekki trúverðugt að ráðherra eða ráðuneyti viti ekki af slíku. Það virkar ekki fyrir mig. Því miður er það svo. Ég trúi því ekki að einhver einn aðili hafi komist upp með það allan þennan tíma að segja ósatt án þess að nokkur hafi haft grun um annað og að ráðherra hafi ekki rennt grun í hvernig í málunum lægi. Það leiðir væntanlega skýrsla umboðsmanns Alþingis í ljós, sem fer vonandi að líta (Forseti hringir.) dagsins ljós.