144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Lengi hefur framhaldsskólinn verið fjársveltur og framlag á hvern nemanda að meðaltali verið umtalsvert lægra en á öðrum skólastigum Fyrir örfáum árum var framlagið á hvern nemanda í framhaldsskóla um 800 þús. kr. á ári en um 1.200 þús. kr. á hvern nemanda á leik-, grunn- og háskólastigi. Framhaldsskólinn á Íslandi hefur liðið fyrir þessa stöðu og fyrir það að ekki hefur verið unnt að sinna hverjum nemenda miðað við þarfir. Auðvitað hefur starfsfólk skólanna og kennarar lagt sig fram við að gera eins vel og mögulegt er, en vissulega eru þar þolmörk eins og annars staðar. Það er ekki hægt að bjóða þeim upp á endurgjaldslausa vinnu að einhverju leyti árum saman án þess að það bitni á gæðum starfsins.

Íslenskir framhaldsskólar hafa verið opnir fyrir alla sem þangað hafa sótt frá 16 ára aldri og upp úr. Á síðasta kjörtímabili fjölgaði verulega í framhaldsskólum með átakinu Nám er vinnandi vegur. Þó að fjármagn fylgdi með átakinu dugði það ekki til að greiða að öllu leyti þá viðbót og miklu þjónustu og kennslu sem fylgdi verkefninu og enn bættu kennarar á sig vinnu sem ekki var að öllu leyti greidd. Á þeim tíma var líka tekin ákvörðun um að forgangsraða inn í framhaldsskólann og komu um það skriflegar leiðbeiningar frá menntamálaráðuneyti með hvað að leiðarljósi ætti að forgangsraða nemendum.

Ég vil því fagna því að núverandi menntamálaráðherra hefur ákveðið að setja nemendur á framhaldsskólaaldri í forgang og auka framlag á hvern nemanda. Það mun hafa í för með sér að unnt verður að búa hvern nemanda betur undir nám á öðru skólastigi. Þeim sem enn eru í framhaldsskóla eftir 25 ára aldur verður beint til símenntunar og þekkingarsetra eða háskólabrúa sem hafa boðið (Forseti hringir.) upp á framhaldsskólanám í mörg ár og tekist vel til.