144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Rangfærslur um þær aðgerðir sem farið er í núna fjúka um allar götur og talað er um að leiðréttingin sé til handa hátekjueinstaklingum og okurskuldurum sem fóru óvarlega, jafnvel þótt 70% þeirra sem fái leiðréttinguna séu einstaklingar sem skulda minna en 15 millj. kr. og heimili sem skulda minna en 30 millj. kr. 68% af leiðréttingunni fara til fólks sem var yngra en 50 ára þegar hrunið varð. 55% leiðréttingarinnar fara svo til einstaklinga sem eiga minna en 4 millj. kr. í eigin fé í húsnæði sínu og hjóna sem eiga minna en 13 millj. kr.

Málflutningur andstæðinga síðustu mánuði hefur verið á þann veg að ekkert mundi verða af leiðréttingunni. Nú þegar hún er komin æsa andstæðingar hennar sig og tala um hve lítið sé sett í hana. Hver þúsundkall skiptir máli í heimilishaldi, og ef einhver, bara einhver, fær leiðréttingu á sinni stöðu þá samgleðst ég.

Auðvitað er ekki til ein leið sem hentar öllum sem urðu fyrir skakkaföllum í hruninu, því að ekkert heimili og enginn hagur er nákvæmlega eins. En leiðréttingin er skref í rétta átt og það að gera lítið úr fjárhæðum sem fólk fær í gegnum hana, eins og virðist bera á núna, er frekar kalt af einstaklingum.