144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það hefur verið einkar ánægjulegt að fylgjast með viðbrögðum við skuldaleiðréttingu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Það hefur verið ánægjulegt að fá allar kveðjurnar, tölvupóstana, sms-in, þakkirnar. Það er ánægjulegt til þess að vita að gleði og von býr nú loksins í brjóstum þeirra sem fengu leiðréttingu sinna mála.

Ég vil líka óska þeim til hamingju hér innan húss sem voru á móti þessu í hjarta sínu en sóttu samt um og fengu leiðréttingu, líka þeim sem ekki vilja gefa upp hvort þeir sóttu um eða fengu leiðréttingu. Það minnir pínulítið á litlu gulu hænuna, þeir sem ekki voru til í að sá, þreskja, mala og baka eru tilbúnir að fá bita af brauðinu. Njótið vel. [Hlátur í þingsal.] (KaJúl: Er þetta … framsóknarmanna?) Mig langar — Ég heyri að hv. stjórnarandstöðuþingmönnum [Kliður í þingsal.] líður illa undir þessu. (Forseti hringir.) Ég heyri væl …

(Forseti (EKG): Forseti biður hv. þingmenn að láta af þessum miklu frammíköllum. Hv. þingmaður hefur orðið.)

Ég vona að ég fái þá tækifæri til þess að ljúka máli mínu, hæstv. forseti. Þannig er mál með vexti að einn afkastamesti bloggari landsins bloggaði í gær og hann er meðaleintak eða týpískt dæmi um þá sem eru að fá leiðréttingu sinna mála, ríkisstarfsmaður á BHM-taxta, einstæður faðir, keypti á erfiðum tíma og hann segir í upphafi máls sín, og ég hef leyfi hans til að fara með þetta, að hann hafi ranglega ásakað núverandi ríkisstjórn undir forustu Sigmundur Davíðs Gunnlaugsson vegna vanefnda í sambandi við skuldaleiðréttinguna. Síðan segir hann að þessum mönnum hafi tekist að leiðrétta þennan forsendubrest sem varð á árunum 2008–2010. Og hann segir hér, með leyfi forseta:

„Hafi þeir innilegar þakkir fyrir það og á sama tíma verður maður að furðast á viðbrögðum (Forseti hringir.) þeirra sem gagnrýna aðgerðina en mótmæltu forsendubrestinum árum saman. Að leiðrétta ekki þennan forsendubrest var prófið (Forseti hringir.) sem „Vinstri velferðarstjórnin“ féll á.“