144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að óska okkur öllum til hamingju með niðurstöðurnar varðandi skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar og minna á þá leið er varðar séreignarlífeyrissparnaðinn að enn er hægt að sækja um að fara þar inn þannig að menn átti sig á því. Hvort sem þeir samþykktu þessar tillögur eða ekki þá eru þetta auðvitað lög sem gilda í landinu fyrir alla.

En af því að hér er talað heilmikið um forgangsröðun, aðallega vegna heilbrigðismála, þá má ekki gleyma því að þeir flokkar, Vinstri grænir og Samfylkingin, sem sátu í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili, höfðu öll tök á því að bæta í þessa málaflokka. (Gripið fram í.) Þeir höfðu tök á því að gera það og sýna þannig vilja sinn í verki. Það var hins vegar ekki gert. (Gripið fram í.)

Það vekur athygli að þeir hv. þingmenn koma hingað upp í röðum og gagnrýna það að við í þeirri ríkisstjórn sem nú starfar séum búin að bæta milljörðum inn í heilbrigðiskerfið — milljörðum. Hv. þm. Lilja Rafney ætti hugsanlega að fletta upp í fjárlögunum og kanna það með hvaða hætti við höfum bætt inn í heilbrigðismálin (Gripið fram í.) og ætti þar með að átta sig á tölunum og staðreyndum vegna þess að tölurnar ljúga ekki.

Tökum dæmi um hjúkrunarheimili, fjölda hjúkrunarrýma. Var þeim fjölgað á síðasta kjörtímabili? (LRM: Já.)— Nei, þeim var ekki fjölgað á síðasta kjörtímabili. Í síðustu fjárlögum settum við í þinginu 200 millj. kr. inn í heilbrigðiskerfið, hér í sal Alþingis, til að bregðast við þeim bráða vanda sem steðjaði að landsbyggðinni vegna vöntunar á slíkum rýmum. Við nýttum betur það húsnæði sem fyrir var. Ég tel að þar höfum við verið að gera það besta sem við gátum í stöðunni með því að nýta skattpeninga okkar landsmanna (Forseti hringir.) með hagstæðum hætti og bæta enn verulega úr heilbrigðisvandanum.