144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:39]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Vegferð og barátta sem hófst fyrir sex árum er nú orðin staðreynd. Nú er verið að rétta hlut heimilanna á kostnað þrotabúa bankanna og kröfuhafa líkt og talað hefur verið um frá upphafi. Með tímanum varð verkefnið flóknara en með ótrúlegri vinnu og útsjónarsemi fólks sem lagði útfærslunni lið er ástæða til að kætast. Vil ég sérstaklega gleðjast yfir dreifingu skuldaniðurfellingarinnar í þessum almennu aðgerðum sem augsjáanlega gagnast stórum hlut íslenskra heimila.

Ég vil nefna sem dæmi að einstaklingar sem skulda minna en 15 millj. kr. og heimili sem skulda minna en 30% millj. kr. fá rúmlega 70% af fjárhæð leiðréttingarinnar. Þetta eru venjulegir Íslendingar.

75% af fjárhæð leiðréttingarinnar renna til einstaklinga með minna en 7 millj. kr. í árstekjur og heimila með minna en 16 millj. kr. í árstekjur. Þetta eru venjulegir Íslendingar.

Fólk sem var yngra en 50 ára við forsendubrestinn fær 68% af fjárhæð leiðréttingarinnar í sinn hlut. Hæsta fjárhæð fer til heimila þar sem elsti aðilinn á heimilinu er 35 ára við forsendubrestinn. Þetta eru venjulegir Íslendingar.

Stærsti hluti leiðréttingarinnar fellur í hlut einstaklinga sem skulda á bilinu 10 til 20 millj. kr. og heimila sem skulda 20 til 30 millj. kr. Þetta eru venjulegir Íslendingar.

55% fjárhæðar leiðréttingarinnar renna til einstaklinga sem eiga minna en 4 millj. kr. í eigin fé og heimila sem eiga minna en 13 millj. kr. í eigin fé. Mest fá þeir sem eiga ekkert. Þetta eru venjulegir Íslendingar.

Meira en helmingur af heildarfjárhæð leiðréttingarinnar rennur til fólks sem er undir meðallaunum. Þetta eru venjulegir Íslendingar.

Þetta er fyrsta stóra efnahagslega aðgerð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Ég hlakka til að taka þátt í framhaldinu þar sem mörg ögrandi og krefjandi verkefni bíða okkar.