144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[16:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vona að þessar gagnmerku upplýsingar hafi ekki verið fluttar sérstaklega í tilefni þess að ég væri að koma í ræðustólinn.

Síðan vildi ég gjarnan að hæstv. forsætisráðherra og málshefjandi væri hérna í salnum. Hann bar sig vel og víst má hann reyna að njóta dagsins en ekki gat hann samt stillt sig um að hnýta í þá sem á undan honum fóru með völdin í landinu og eins og venjulega höfðu þeir gert flest vitlaust sem hægt var að gera vitlaust.

Ég hef áður heyrt forsætisráðherra halda þessa ræðu við einstaka tækifæri, kjöraðstæðurnar sem voru til staðar 2009 til að virkilega laga stöðu heimilanna á Íslandi. Þá var sko aldeilis leikurinn léttur, að alveg svoleiðis moka fé úr ríkissjóði í almenning í landinu. Var það ekki? Jú.

Hvernig var staðan? Hallinn á ríkissjóði var 217 milljarðar á þágildandi verðlagi árið 2008. Stefndi í 170–200 milljarða halla á árinu 2009. Ísland rambaði á barmi gjaldþrots. Við vorum inni í svartholi gríðarlegra efnahagsáfalla sem mjög lítið lá þá fyrir um hvernig landinu gengi að krafla sig út úr. Hvað átti að gera þá? segir forsætisráðherra Íslands í dag. Það átti að breyta ríkissjóði í vogunarsjóð og hefja uppkaup á kröfum í fallin þrotabú, já. Alveg rakið mál. Breyta ríkissjóði Íslands sem var fallinn niður í ruslflokk í lánshæfismati og umheimurinn reiknaði með að væri að fara á hausinn þannig að algengasta spurning erlendra blaðamanna var: Verður gjaldþrot á Íslandi, verður þjóðargjaldþrot á Íslandi? Nei, þá áttum við að breyta ríkissjóði í vogunarsjóð, kaupa upp kröfur og moka hundruðum milljarða út í einkaskuldir. Þvílíkur málflutningur. Það fer hrollur um mann ef þetta er virkilega í alvöru sem svona er talað, ábyrgðarleysisóráðshjal af þessu tagi.

Í öðru lagi, herra forseti, vil ég nefna það að við höfum heyrt af því, fengið af því fréttir að það eigi að flýta framkvæmd þessarar aðgerðar í þeim skilningi að það eigi að borga hraðar úr ríkissjóði fé inn á biðlánin eða leiðréttingarhluta lánanna sem færður verður á sérstaka reikninga, jafnvel 40 milljarða strax á þessu ári. Fyrir því er ekki fjárheimild. Það var lögð á það rík áhersla hér í fyrra af aðstandendum aðgerðarinnar að þetta væri alltaf háð fjárheimildum frá Alþingi á hverju ári og aðgerðin byggð á því.

Þá vil ég spyrja, og ef hæstv. forsætisráðherra hefðist hér í salinn væri mín spurning til hans eða hæstv. fjármálaráðherra eða stjórnarliða, formanns og varaformanns fjárlaganefndar, sem vantar nú ekki heilagleikann í þegar talað er um góðar reglur í ríkisfjármálum: Fóru útreikningar lánanna fram á öðrum grundvelli en þeim er fjárheimildir standa til í lögum? Er búið að taka það inn í útreikningana að ríkið borgi 40 milljarða inn á þessu ári en ekki 20? Á grundvelli hvaða fjárheimildar?

Síðan er okkur sagt að batnandi afkoma ríkisins í ár eigi að réttlæta þetta, því að það verði svo mikill afgangur á ríkissjóði. Hvernig á að mynda þann afgang að stærstum hluta? Með því að lækka eigið fé Seðlabanka Íslands og færa það sem arðgreiðslu í ríkissjóð. Það á að skila 26 milljörðum. En þessi ráðstöfun er ekki heimil samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands, þannig að það vantar líka lagastoð fyrir því að gera ríkið upp á þennan hátt á þessu ári. Ég fæ því ekki betur séð en að það vanti lögheimildir í tveimur tilvikum til þess að réttlætanlegt sé að reikna aðgerðirnar út á þeim grunni að minna af 80 milljörðunum fari í vaxtakostnað og meira í niðurfærslu höfuðstóls.

Hvert er þá fjárveitinga- og fjárstjórnarvald Alþingis farið og lagasetningarvald? Mér finnst þetta vera mikið umhugsunarefni ef menn umgangast það sem þeir þykjast ætla að virða með léttúðugum hætti. Og hvað segja þeir stjórnarþingmenn sem meðal annars skutu sér á bak við þetta, að þetta væri í því örugga skjóli að Alþingi þyrfti alltaf á hverju ári að samþykkja fjárheimildirnar og það væri hægt að vinda ofan af aðgerðinni inni í framtíðinni ef þær fjárheimildir yrðu ekki veittar, ef tekjustofninn brygðist eða eitthvað færi úrskeiðis? Nú er ríkisstjórnin, ekki inni á Alþingi, ekki í gegnum ákvarðanir hér heldur úti í bæ, búin að ákveða að gera þetta allt öðruvísi en hún kynnti og lagði fyrir Alþingi í fyrra og fékk samþykkt. Er mönnum alveg sama um það? Hvernig var þetta kynnt í þingflokkum stjórnarflokkanna? Var valdaður þingmeirihluti fyrir þessu hvoru tveggja áður en reikniverkið var sett í gang? Hvað segir hv. þm. Pétur H. Blöndal? Samþykkti hann það í þingflokki Sjálfstæðisflokksins að aðgerðin yrði allt önnur en lögin heimila í dag, og vantar á tveimur stöðum heimildir í lögum til að útfæra aðgerðina með þeim hætti sem manni skilst að hafi samt verið gert?

Af hverju hlýtur það að hafa verið gert þannig? Jú, vegna þess að það er búið að birta útreikningana, það er búið að ræsa reikniverkið og þá hljóta menn að hafa gefið sér forsendur fyrir því hversu mikið af 80 milljörðunum færi í vaxtakostnað á árunum 2015 og 2016, mun minna en ef aðgerðin hefði dreifst á fjögur ár, og fært þær fjárhæðir yfir í það sem kemur í frádráttarliðina og lækkun höfuðstóls, því að annars gengi reikniverkið ekki upp.

Herra forseti. Ég vil í öðru lagi gagnrýna það að haldið hefur verið fram mjög villandi upplýsingum um kostnað hins opinbera vegna þessara aðgerða. Áróðursmeistarinn hefur örugglega verið á þokkalegum launum í Hörpunni við að matreiða þar alveg ótrúlega ósvífna framsetningu þar sem tölur um það hvað höfuðstóll lækkaði mikið yfir líftíma lána voru ýktar með því að sleppa frádráttarliðunum. Svo stóð það neðanmáls nánast á ólæsilega smáu letri að þessi dæmi væru án frádráttarliða. En þetta var selt þjóðinni. Ég held að hún hafi ekki verið með stækkunargler á skjánum til að sjá: Heyrðu, bíddu, þetta er aðeins fegruð mynd. En þannig var það. Þetta er ósvífið. Þetta var eins fjarri hlutlægri og vandaðri faglegri kynningu og nokkuð gat verið og þeir fengu mikinn snilling í þetta.

Kostnaður vegna þessara aðgerða, eins og lesa má um til að mynda í nefndaráliti bæði 3. og 4. minni hluta þegar málin voru hér til umfjöllunar á síðasta ári, er alltaf stórlega vanmetinn þegar talað er um þetta. Það var talað um 80 milljarða plús 20 vegna séreignarsparnaðarins. Ekki minnst á kostnað Íbúðalánasjóðs. Hvað tókst að særa út um það á grundvelli upplýsinga frá Íbúðalánasjóði sjálfum? Jú, að það gætu orðið allt að 24 milljarðar sem skellurinn yrði á Íbúðalánasjóð. Ekki minnst á það. Það vantar að reikna með ávöxtun á inngreiddu fé í séreignarsparnaðarkerfið ef það væri skattað með venjulegum hætti. Það má ætla að umtalsverður kostnaður lendi á ríkinu í gegnum almannatryggingarnar á komandi áratugum vegna þess að lífeyrisgreiðslur verða minni sem koma til frádráttar vegna tekjutengingarákvæðanna þar. Það eru nokkrir milljarðar, það er fljótreiknað. Það munar um það að svona fjárhæðir fari út úr séreignarsparnaðinum núna í staðinn fyrir að koma til útgreiðslu ávaxtaðar eftir 10 ár, 20 ár, 30 ár, og gefa þá bæði ríki og sveitarfélögum tekjur og draga úr útgjöldum í almannatryggingakerfinu. Og aftur vitnað í hv. þm. Pétur H. Blöndal, hann þekkir þetta samspil mjög vel. Þannig gæti ég lengi haldið áfram.

Ríkisstjórnin hefur meðal annars gripið til þess ráðs í málflutningi sínum, auðvitað eins og venjulega, að níða niður allar aðgerðir og ráðstafanir á síðasta kjörtímabili og talar mikið um hvað 110%-leiðin hafi verið félagslega fáránlega útfærð. Þar hafi verið afskrifaðar gríðarlega háar fjárhæðir, fámennir hópar hafi fengið þar háar tölur. Við skulum aðeins fara yfir það.

Staðreyndin er sú að umfang aðgerða á síðasta kjörtímabili af mismunandi tagi var af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir eða meira, að frátöldum niðurfærslum gjaldeyrislána vegna ólögmætis þeirra. Það er staðreynd, og skiptist í fjölmarga hluti eins og greiðslujöfnun einstaklinga, sem um 22–23 þús. heimili nutu góðs af og voru með lægri greiðslur á þessum tíma fram að árslokum 2012, sem nam einum 12–14 milljörðum. Það voru hundruð í tímabundinni greiðsluaðlögun, tímabundnum úrræðum fyrir einstaklinga með tvær fasteignir, frystingar og greiðslufrestanir tóku til nokkur þúsund manns, fjögur, fimm þúsund manns á þessum tíma, og það var frestað með slíkum hætti afborgunum upp á 35–40 milljarða kr. Sértæk skuldaaðlögun, þúsund manns plús/mínus, 110%-leiðin, um 12 þús. manns sem fengu þar niðurfærslu veðskulda upp á 45–50 milljarða kr., yfirveðsettu heimilin, og í þeim hópi skáru sig auðvitað úr fjölskyldurnar sem keypt höfðu á óhagstæðasta tíma, voru með ný lán upp á 90–100% af verðmæti fasteignar. Eðlilega voru þau færð mikið niður. En gleymum því ekki að sú leið var innan þeirra takmarka að niðurfærslan gat ekki farið yfir 4 milljónir hjá einstaklingi og 7 milljónir hjá hjónum nema menn færu þá í framhaldinu í mjög rækilega síu og allar aðrar eignir væru teknar og metnar og dregnar frá niðurfærslunni. Hún var ekki opin, hún var með tilliti til eignastöðu, þannig að þegar menn gagnrýna þá aðgerð og ætla að finna sér skjól í því fyrir núverandi útfærslu gleyma þeir því, horfa fram hjá því. En auðvitað voru afskrifaðar háar fjárhæðir þar sem yfirveðsetningin var orðin 150–200%.

Það var á kostnað banka, fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða að uppistöðu til, um 4/5 hlutar kostnaðarins lentu annars staðar en hjá ríkinu í þeirri aðgerð. Og auðvitað varð það að einhverju leyti að gerast þá á þeim viðskiptalegu forsendum sem þessir aðilar gátu sæst á. Þannig var nú það.

Að lokum varðandi þessa aðgerð. Auðvitað er það þannig að fjöldi fólks fær hér lækkun skulda sinna sem er vel að því kominn og finnst það kærkomið. En því miður er það þannig að á báðum endum málsins skortir verulega á að þessi aðgerð standist félagslegar kröfur. Þeir sem eru í mestum erfiðleikum áfram fá lítið, allt of lítið eða ekki neitt vegna þess að fyrri ráðstafanir eru allar dregnar frá. Á hinum endanum fær fullt af fólki mikla fjármuni og eykur auð sinn sem er ekki í neinum vandræðum og á enga kröfu á að það sé millifært opinbert fé til þess að gera það ríkara í núinu á kostnað barna okkar og barnabarna. Það er ekki verjandi, það er afsiðandi að standa þannig að málum. Almennt er það þannig að þegar við millifærum fé í kerfi okkar er horft til þess að aðstoða þá sem eru í erfiðastri stöðu. Þess vegna er almannatryggingakerfið tekjutengt, þess vegna eru vaxtabætur tekjutengdar, barnabætur tekjutengdar eða bæði eigna- og tekjutengdar í sumum tilvikum.

Hér er það ekki gert og það mun leiða til þess að til dæmis 227 heimili sem áttu meira en 120 millj. kr. hreina eign eiga rétt á niðurfærslu í þessu kerfi samkvæmt gögnum sem við náðum út í fyrra. Leigjendur, 25% þjóðarinnar, fá ekki neitt, þeir sem eru búnir að greiða upp skuldir sínar fá ekki neitt o.s.frv. Ég reyni, herra forseti, almennt að vera bjartsýnn á framtíðina en ég játa það að stundum leita á mig þungar hugsanir: Hvað er það sem börnin okkar koma til með að taka við? Mér finnst að ábyrgð okkar stjórnmálamanna og hverrar kynslóðar eigi ekki síst að liggja í því að reyna að skila landinu sómasamlega af sér til barnanna sinna. Hvað erum við meðal annars að gera með þessu?

Við erum að skutla gríðarlega stórum reikningi inn í framtíðina, svo nemur 200 milljörðum a.m.k. Það mun koma niður á lífskjörum og skilyrðum í þessu landi á komandi áratugum, og við erum að hluta til að gera það. Að hluta til, vissulega ekki gagnvart öllum en að hluta til erum við að gera það þannig að það eykur auð fólks í dag sem hefur nóg handa á milli, enda stendur ekki á því úti í þjóðfélaginu að væntingarnar vakna núna á mestu jólaverslun nokkru sinni síðan 2007. Menn panta inn græjur og dót, dýrara og fínna en undanfarin sex til átta ár, því að nú búast menn við neysluveislu, og lesi menn bara fjölmiðlana þar um.

Hvað erum við að búa í hendurnar á börnunum okkar að mörgu leyti? Við erum meðal annars að senda þeim þennan reikning, það er þannig. Við hefðum getað notað þessa fjármuni í að greiða niður skuldir, við hefðum getað sleppt því að afsala ríkinu þessum tekjum, ríki og sveitarfélögum, inni í framtíðinni. Þær verða ekki þarna, hæstv. fjármálaráðherra, sem þær hefðu annars orðið, það er alveg á hreinu. Við erum að horfa á innviði samfélagsins að mörgu leyti fúna niður og einhvern veginn verður að taka á því, einhverjir þurfa að laga vegina, byggja Landspítalann og lappa upp á það sem er að fúna niður í höndunum á okkur. Við erum ekki að gera það. Við erum að hlífa okkur við óþægindunum sem kynslóð í allt of ríkum mæli og senda reikninginn inn í framtíðina. Það finnst mér ekki siðferðilega verjandi. Ef íslensk stjórnmál eiga að fara að þróast þannig að menn komist upp með nánast hvað sem er í þágu atkvæðakaupa í núinu þá býð ég ekki í það. Hverju verður lofað næst? Hverju verður lofað næst þegar flokkar í þrengingum þurfa að hysja upp hjá sér fylgið, ef þetta gengur svona eftir? Ég hef af þessu dauðans áhyggjur, herra forseti, að þetta sé ekki til þess að auka ábyrgðarkennd og vandaða stjórnmála- og stjórnsýsluhætti hér í þessu landi.