144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[16:26]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er til siðs í breska þinginu undir liðnum fyrirspurnir til ráðherra að spyrja út í dagskrá ráðherra. Ég verð að gera það undir þessum lið. Hvað er það á dagskrá hæstv. forsætisráðherra sem er brýnna en að taka þátt í þessari umræðu í þingsal?

Á fundi þingflokksformanna með forseta í gær var greint frá tilhögun þessarar umræðu og hún var þannig að það mundi verða eitthvert tímabil á þingfundinum þar sem forsætisráðherra þyrfti að sinna fundi sem var löngu ákveðinn. Það var almennt góður skilningur á því. (Gripið fram í.) Forseti ætlaði að raða dagskránni þannig upp að flestir stjórnarandstæðingar gætu talað á þeim hluta sem forsætisráðherra væri hérna. Mér sýnist að einhverjar aðstæður eins og hæstv. forseti orðaði það sem forsætisráðherra réð ekki við hafi komið upp. Það væri gott að fá að vita hvaða ástæður það eru vegna þess að ég geri ráð fyrir því að hann hafi ekki haft tóma dagskrá þegar ákveðið var að setja þessa umræðu á dagskrá þingsins.

Mér finnst mjög miður að ekki sé mark takandi á þeim orðum og upplýsingum sem (Forseti hringir.) þingflokksformenn fá á fundum með forseta.