144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

fjarvera forsætisráðherra í umræðu um skuldaleiðréttingu.

[10:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að ekki verði undan því vikist að þingið fái svar við þeirri spurningu sem hér hefur verið borin upp: Hvað er mikilvægara en þingfundur þar sem sérstaklega er sett á dagskrá stærsta kosningamál forsætisráðherra? Hvað er mikilvægara en þingfundur?

Eru menn að missa sjónar á því að á Íslandi er þingbundin stjórn, þ.e. ríkisstjórnin situr í umboði Alþingis? Þessi framkoma ítrekað við Alþingi af hendi forsætisráðherra ber með sér að sá skilningur sé ekki klár, að hæstv. forsætisráðherra telji að framkvæmdarvaldið og þar með hann sjálfur sé settur yfir þingið með einhverju móti.

Virðulegur forseti. Það er alls ekki þannig og mér finnst mikilvægt að forseti standi vörð um þingið með okkur hinum hvað þetta varðar, að þingið (Forseti hringir.) er með forsætisráðherrann í vinnu hjá sér. Það er þannig (Forseti hringir.) sem það er.