144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

fjarvera forsætisráðherra í umræðu um skuldaleiðréttingu.

[10:41]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Svo bar við síðastliðinn vetur þegar hæstv. utanríkisráðherra hafði flutt mjög umdeilda tillögu um að slíta formlega viðræðum við Evrópusambandið og hér brast á með löngum fundum og miklum umræðum og þúsundir manna mótmæltu við þinghúsið, að hæstv. forsætisráðherra var staddur í útlöndum þar sem hann tók m.a. að sér að leika lukkudýr fyrir íshokkílið í Edmonton í Kanada. Maður velti fyrir sér hvort eitthvað slíkt sé hér á ferðinni. Það væri ágætt að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason mundi nú koma hér upp, af því að hann situr í þingsal, og útskýra fyrir okkur í þinginu hvað það var sem var mikilvægara en að taka þátt í umræðu um þetta stóra mál ríkisstjórnarinnar í gær. Mér skilst að hv. þingmaður aðstoði nú forsætisráðherra við eitthvað af skylduverkum hans.