144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

afnám verðtryggingar.

[10:48]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa fyrirspurn frá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur. Eins og hv. þingmaður þekkir og kom aðeins fram varðandi fundarstjórn forseta hófst umræða hér í gær um skuldaleiðréttinguna. Í þeirri ræðu fór forsætisráðherra skýrt í gegnum það hvernig við erum að vinna að því að afnema verðtrygginguna á nýjum neytendalánum. Það er fyllilega í samræmi við þau loforð sem við gáfum í aðdraganda kosninganna. Við töluðum um að við vildum gera þrennt, við framsóknarmenn: Við vildum leiðrétta skuldir heimilanna og við erum búin að gera það á einu og hálfu ári frá því að við tókum við. Við ætlum að afnema verðtryggingu á nýjum neytendalánum og það hafa þegar komið fram tillögur, skýrsla unnin af nefnd um það hvernig ætti að gera það. Forsætisráðherra fór mjög nákvæmlega í gegnum tillögurnar í ræðu sinni hér í gær og ég efast ekki um að hv. þingmaður hafi hlustað á hana. Síðan ætlum við okkur að efla atvinnulífið, því að atvinnan hlýtur að vera forsenda alls annars.

Í ræðu hv. forsætisráðherra kom fram að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur umsjón með vinnu um að óheimilt verði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára, að lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur um allt að tíu ár og takmarkanir verði á veðsetningu verðtryggðra íbúðalána.

Ráðherrann bendir líka á að velferðarráðuneytið hefur í framhaldi af skýrslu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála umsjón með aðgerðum til að auka hvata til töku og veitingar óverðtryggðra lána. Forsætisráðuneytið hefur skipað starfshóp um leiðir til að sporna gegn því að sjálfvirkar hækkanir verði á vöru og þjónustu og tenging í skammtímasamninga við vísitölu neysluverðs kyndi undir verðbólgu. Svo hefur verið skipuð sérstök verðtryggingarvakt.

Við erum náttúrlega mjög stolt af þeim árangri sem við höfum náð í því að tryggja stöðugleika hér í verðlagi. Við sjáum það núna að í níu mánuði höfum við verið undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans.