144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

afnám verðtryggingar.

[10:51]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vona að þar sem hv. þingmaður og stjórnarandstaðan hefur séð hvernig við höfum staðið við loforð okkar varðandi skuldaleiðréttinguna mun það efla trú hv. þingmanns á að við hyggjumst líka standa við önnur loforð sem við gáfum í aðdraganda kosninganna. (Gripið fram í.) Það kann að vera (Gripið fram í.) ákveðin nýjung fyrir hv. þingmann en hins vegar tökum við það mjög alvarlega sem við lofuðum kjósendum fyrir kosningar. Ég vona að hv. þingmaður samgleðjist okkur hvað það varðar.

Í tillögum verðtryggingarnefndar sem forsætisráðherra skipaði — ég hvet hv. þingmann til þess að kynna sér þær tillögur — sem við vinnum samkvæmt er lögð áhersla á að grípa þurfi til ákveðinna aðgerða sem snúa að grundvelli húsnæðiskerfisins og snúa að því að taka á vanda Íbúðalánasjóðs sem er mjög mikill og sem fyrri ríkisstjórn tók ekki á en við erum að vinna að. Við munum, eins og við höfum sýnt, standa nákvæmlega við það (Forseti hringir.) sem við lofuðum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)