144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

leiðrétting til fólks á leigumarkaði.

[10:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Í þeirri fjármálastofnun sem hæstv. félagsmálaráðherra stýrir, Íbúðalánasjóði, er eftir hálft annað ár Framsóknarflokksins í ríkisstjórn bara boðið upp á verðtryggð lán. Það segir allt sem segja þarf um það mál.

Ég er hingað kominn til að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvernig hún geti staðið hjá og horft á viðamiklar aðgerðir í þágu heimilanna í landinu til að leiðrétta þann forsendubrest og þann mikla verðbólguskell sem fólkið í landinu varð fyrir eftir hrunið, þegar í þeim aðgerðum, í öllum 100 milljörðunum, eru engir fjármunir fyrir þau 30 þús. heimili í landinu sem eru á leigumarkaði. Fólkið á leigumarkaðnum varð fyrir alveg sama áfallinu, leiga þess hækkaði í takt við þá óðaverðbólgu sem hér varð eftir hrun. Ég held að flestum, ef ekki öllum, í þessum sal finnist það sjálfsagt sanngirnis- og réttlætismál að fyrst verið er að leiðrétta verðtryggð lán hjá þeim sem þó eiga eigið íbúðarhúsnæði hljóti þeir sem eru á leigumarkaði að eiga að njóta sams konar aðgerða. Ég sé hins vegar ekki í fjárlagafrumvarpinu neina fjármuni til þess.

Ég spyr hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttur, hvort þetta geti verið svona, hvort það sé í alvörunni þannig að verja eigi öllum þessum peningum fyrir þá sem eiga húsnæði en engum fyrir þá sem eru á leigumarkaði og urðu fyrir alveg sama verðbólguskelli, ef ekki alvarlegri, og önnur heimili í landinu.