144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

Túlkasjóður.

[11:05]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Málefni túlkaþjónustunnar hafa verið í brennidepli á undanförnum vikum. Ástæða þess er ekki sú hversu vel eða illa er að þeirri þjónustu staðið af hálfu ríkisvaldsins heldur sú að enn og aftur er svo komið að fjárveiting til túlkaþjónustu í daglegu lífi er uppurin. Barátta döff (heyrnarlausra) fyrir túlkaþjónustu og stöðu íslenska táknmálsins hefur staðið yfir í marga áratugi. Á 25 ára tímabili hafa verið skipaðar að minnsta kosti sjö nefndir til að fjalla um úrræði sem tryggja döff fólki og heyrnarlausum þjónustu, m.a. túlkaþjónustu. Á sama tíma hafa verið lagðar fram að minnsta kosti átta skýrslur sem taka á sama efni.

Sumarið 2010 lagði Félag heyrnarlausra fram heildstæðar tillögur til framkvæmdanefndar I um þjónustu við félagsmenn sína. Þær tillögur voru lagðar til hliðar, niðurstaðan er sem sagt engin. Nú er enn ein nefndin að störfum sem vinnur að tillögum til framtíðar í málaflokknum.

Virðulegi forseti. Við Íslendingar erum aðilar að alþjóðasamningum um mannréttindi. 30. mars 2007 undirrituðum við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en í 1. gr. þess samnings sem er markmiðsgreinin stendur, með leyfi forseta:

„Markmiðið með samningi þessum er að stuðla að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi, og að auka virðingu fyrir meðfæddri göfgi þess.

Til fatlaðs fólks teljast þeir sem eru líkamlega, andlega eða vitsmunalega skertir eða sem hafa skerta skynjun til frambúðar sem kann, þegar víxlverkun verður milli þessara þátta og tálma af ýmsu tagi, að koma í veg fyrir fulla og virka þátttöku þeirra í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli.“

Það er ljóst í mínum huga að með því að leggja ekki aukið fé í túlkasjóðinn er ráðherrann og við sem förum með löggjafarvaldið ekki einungis að sýna því fólki sem á þessu þarf að halda mikla vanvirðingu heldur erum við einnig að brjóta á mannréttindum þess.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er: Hvernig hefur samstarf Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og menntamálaráðuneytis verið háttað og hvaða verklag hefur verið tekið upp til að fjárskortur í lok árs, sem átti sér einnig stað í fyrra, eigi sér ekki stað á ný?