144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

framkvæmd þingsályktunar um tjáningar- og upplýsingafrelsi.

[11:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina en vil benda á að í máli hv. fyrirspyrjanda kom alveg skýrt fram hversu mörg og stór og mikil álitamál eru undir eins og t.d. tjáningarfrelsið, refsilöggjöf o.s.frv., sem tekur augljóslega ekki bara tíma að skoða heldur þarf líka að ná fram pólitískri sátt um hvernig halda skuli á af því að hér er um að ræða viðkvæmt mál sem snýr að grundvallarstoðum samfélagsins.

Ég verð bara að segja eins og er að allt hefur það tekið tíma. Við höfum áttað okkur á því í vinnuferlinu að þetta er mjög flókið mál og ég veit að hv. þingmaður þekkir það mjög vel. Þarna eru mörg atriði sem skipta máli, eins og hv. þingmaður nefndi sjálfur. Ég skal líka segja eins og er að ég er ekki með stórt lögfræðisvið, það er frekar þunnskipað. Við höfum þurft að hagræða í ráðuneytinu þannig að við erum ekki með mikinn mannafla. Þessa dagana og undanfarnar vikur hefur reyndar farið mjög mikill tími í mínu ráðuneyti í að svara fyrirspurnum frá þinginu sem hafa margfaldast að vöxtum og ég hef þurft að setja töluvert af starfsfólki mínu til þeirra verka. Ég verð bara að segja eins og er að ég hef takmarkaðan tímafjölda. Það þýðir ekki að verkefnið verði ekki unnið en það stýrir nokkuð þeim hraða sem verkefnið er á.