144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

málefni tónlistarmenntunar.

[11:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá þetta tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um málefni tónlistarmenntunar sem eru mörgum ofarlega í huga þessa dagana, bæði í ljósi þess að yfir stendur verkfall tónlistarkennara og líka í ljósi þess að málefni margra tónlistarskóla, ekki síst í Reykjavík, virðast vera í nokkru uppnámi, og er ég þá að vitna til fjárhagslegrar stöðu skólanna.

Ríkið er ekki viðsemjandi tónlistarkennara og getur því lítið beitt sér þegar kemur að kjaramálum, en þegar kemur að stöðu skólanna er gjarnan vitnað til samkomulags sem gert var milli ríkis og sveitarfélaga að vori 2011 þar sem ríkið ákvað eftir langar viðræður að koma að eflingu tónlistarnáms með því að taka þátt í að styrkja tónlistarnám á framhaldsstigi.

Það samkomulag fól í sér umtalsverðar fjárhæðir, framlag upp á 480 millj. kr. frá ríki til sveitarfélaga, þar af 250 millj. kr. af nýjum fjármunum, en afgangurinn fólst síðan í breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Hugsunin var sú að ríkið tæki með auknum hætti þátt í kennslukostnaði við tónlistarnám á framhaldsstigi. Með samkomulaginu var meðal annars ætlunin að koma í veg fyrir þá stöðu sem hafði verið uppi um nokkurt skeið að nemendur gátu ekki sótt tónlistarnám milli sveitarfélaga. Þar voru í gangi svokölluð vistarbönd eins og rætt var um og markmið samkomulagsins var annars vegar að efla framhaldsstig í tónlist og hins vegar að aflétta vistarböndum.

Í samkomulaginu var líka rætt um að til stæði að leggja fram nýtt frumvarp til laga um tónlistarmenntun á 140. löggjafarþingi Alþingis sem var 2011–2012. Nú er nokkuð ljóst að það tókst ekki. Það var í minni tíð sem menntamálaráðherra. Ég get vitnað til þess og upplýst það hér að það frumvarp átti að vinna í miklu samráði og það var gert og fyrstu drögum að frumvarpinu var skilað vorið 2013. Þá voru þó enn uppi ákveðin álitamál sem ekki var búið að leysa úr. Fyrir lágu nokkuð heilleg drög að frumvarpi en eftir átti að leysa úr álitamálum er vörðuðu fjárhagslega skiptingu og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Málið er orðið mjög brýnt. Ég veit að það hefur verið á þingmálaskrá hæstv. ráðherra, var á síðasta þingi og er líka á þessu þingi á þingmálaskrá hæstv. ráðherra. Við lesum um það fréttir að gjaldþrot blasi við tónlistarskólum í Reykjavík, ýmsum tónlistarskólum, og menn vitna til þess að þetta samkomulag hafi verið túlkað með þeim hætti að Reykjavíkurborg hafi hætt að styrkja framhaldsstigið. Það liggur algerlega fyrir að fjármunirnir í þessu samkomulagi duga ekki til að fjármagna allt framhaldsstigið. Það liggur algerlega fyrir og hefur legið fyrir. Hins vegar má líka benda á að sú tala sem miðaðist við ákveðinn fjölda kennara var byggð á upplýsingum sem ekki voru nægilega nákvæmar þegar kom að fjölda nemenda í framhaldsnámi, það var ekki síst vegna þess að það lágu hreinlega ekki fyrir nógu skýrar upplýsingar um fjölda nemenda á þeim tíma þegar samkomulagið var gert. Eftir að málið fór í þennan farveg hefur að mér skilst farið fram umtalsverð upplýsingaöflun um þau mál þannig að við ættum að hafa talsvert greinarbetri mynd af umfangi framhaldsstigsins í tónlist hvað það kostar nákvæmlega.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um er: Nú rann samkomulagið út haustið 2013. Það hefur verið endurnýjað síðan og ég sé ekki betur en enn sé gert ráð fyrir fjármunum í þetta samkomulag í fjárlögum. Hefur það verið endurskoðað efnislega síðan það rann út? Hvar stendur vinna við frumvarp til laga um tónlistarnám?

Ég hef tekið eftir því í umræðum, mér sýnist í raun og veru að margir kjósi að benda á þetta samkomulag sem uppsprettu hinnar slæmu stöðu tónlistarskólanna. Ég get ekki fallist á að það að setja nýja fjármuni að upphæð 250 millj. kr. inn í tónlistarskólakerfið verði hreinlega til þess að setja þá alla á hliðina en það virðist hafa verið túlkað þannig með því að skera það niður á móti, sem er bagalegt.

Menn vitna til þess að frumvarp hafi átt að koma fram, ný lög hefði átt að samþykkja og þar hefði þessari verkaskiptingu verið breytt. Þangað til nýtt frumvarp kemur fram eru hins vegar gömlu lögin í gildi þar sem sveitarfélögin bera ábyrgð á rekstri tónlistarskóla. En það liggur fyrir að meðan slík óvissa er uppi um túlkun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, að minnsta kosti er mjög mismunandi túlkun, ég veit ekki hvort rétt er að tala um óvissu, er staða tónlistarskólanna (Forseti hringir.) orðin mjög slæm.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Eigum við von á nýju (Forseti hringir.) frumvarpi eða endurskoðun á samkomulagi, einhverju (Forseti hringir.) sem getur bætt stöðu þessara skóla?