144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

málefni tónlistarmenntunar.

[11:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessu. Þá er fyrst til að taka að ég er algjörlega sammála þeirri nálgun sem hv. þingmaður, og fyrrverandi hæstv. ráðherra málaflokksins, hefur hvað varðar efnislegt innihald þess samkomulags sem var gert á milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna um aðkomu ríkisvaldsins að rekstri tónlistarskólanna og tónlistarnáms á framhaldsstigi. Samkvæmt verkaskiptasamkomulaginu á milli ríkis og sveitarfélaga er þetta á verksviði sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafa þá tekjustofna til að mæta þessum útgjöldum. Sama gildir reyndar líka varðandi söngnámið, bæði á miðstigi og framhaldsstigi.

Hugmyndin með samkomulaginu er sú að auðvelda sveitarfélögunum það að leyfa nemendum að fara á milli sveitarfélaga. Það getur verið mjög mikilvægt að svo sé hægt, sérstaklega er það mikilvægt fyrir þá nemendur sem leggja upp með tónlistarnám sitt sem grundvöll að framtíðaratvinnu, eru sem sagt verðandi atvinnufólk í tónlist. Það er alveg sérstaklega mikilvægt fyrir það fólk og þá einstaklinga að þau séu ekki bundin átthagafjötrum hvað varðar möguleika á að komast í þá skóla sem þau þurfa að komast í til þess að geta lagt grunninn að því starfi.

Það má aftur á móti segja að ekki sé sama nauðsyn uppi hvað það varðar að geta valið sér tónlistarnám utan þeirra sveitarfélaga sem maður borgar gjöld til ef um er að ræða einstaklinga sem eru í námi meira af áhuga frekar en að þau ætli endilega að leggja tónlist fyrir sig sem starf. Þá er vel hægt að færa fyrir því rök að þá eigi að fara saman hvar maður greiði útsvarið og síðan hvar maður fær þjónustuna eins og á við um margt annað.

Ég tek undir þær áhyggjur með hv. þingmanni að túlkun einstakra sveitarfélaga skuli hafa verið sú að með samkomulaginu og með þeim fjármunum sem þarna voru settir inn — og ekki bara að það hafi komið, eins og hv. þingmaður orðaði það, nýir peningar, það er alveg jafn mikilvægt að verkefni voru tekin til ríkisins sem þar með auka svigrúm sveitarfélaganna til að bæta úr þarna á móti, þannig að þarna var um umtalsvert mikla fjármuni að ræða.

Það er sárara en tárum taki að það skuli hafa leitt til þess að fjöldi tónlistarskóla skuli, við þetta samkomulag og túlkun þess, nú vera í þeirri stöðu að ramba á barmi gjaldþrots. Það er alveg fráleit niðurstaða. Ég vonast til þess að afstaða þeirra sveitarfélaga sem þannig hafa nálgast málið breytist.

Það skiptir líka máli hver framtíðin verður. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður nefndi, að auðvitað gerist það, kannski af því það lá á að ganga frá þessu, að upplýsingaöflun sem var notuð til að geta lagt mat á umfangið var greinilega ábótavant. Það skiptir auðvitað máli að þetta sé vel gert.

Hvað varðar sérstakar spurningar hv. þingmanns vil ég segja að ekki hefur verið unnin nein endurskoðun á efni samkomulagsins. Afstaða ríkisvaldsins er skýr hvað þetta varðar. Þetta var aldrei lagt fram til að taka yfir þennan rekstur og fjármagna hann. Síðan er það ákvörðun einstakra sveitarfélaga hvort þau setja mikla fjármuni eða litla til þessa málaflokks eða jafnvel enga ef þau svo kjósa, en það hefur auðvitað mjög slæmar afleiðingar og mér finnst það alveg hörmulegt.

Í öðru lagi hvað varðar framtíðina þá hefur þetta mál áfram verið á þingmálaskránni. Ég hef verið að vinna með hugmyndir í ráðuneytinu um fyrirkomulag þessara mála. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður nefndi, það eru ákveðin atriði sem ekki var alveg búið að leiða til lykta hvað varðaði þær hugmyndir sem lágu fyrir. En ég tel að við þurfum í nýju fyrirkomulagi meðal annars að horfa til þess sem ég nefndi áðan um möguleika þeirra sem eru að fara í tónlistarnám og ætla að leggja tónlistina fyrir sig sem sitt ævistarf. Það þarf að hlúa sérstaklega að þeim hópi og vinna með hann. Menntaferill þeirra einstaklinga er um margt ólíkur menntaferli þeirra sem fara í hefðbundið bók- og verknám svo að dæmi sé tekið.

Oft eru þar einstaklingar sem eru fyrr á ferðinni í námi hvað aldur varðar, þannig að hægt þarf að vera að taka tillit til þess. Sökum eðlis þessa náms, þar sem um er að ræða að undirbúa fólk til að koma fram, geta haft þann hæfileika að spila á tónleikum svo að dæmi sé tekið, þá er þetta um margt ólíkt þjálfun en í ýmsu öðru námi sem við bjóðum upp á. Menn verða að gæta sín á því að ætla sér ekki að reyna að láta tónlistarnámið (Forseti hringir.) verða nákvæmlega eins uppbyggt og allt annað nám. Það eru mörg sérkenni þar sem þarf að huga að. (Forseti hringir.) Þá er ég sérstaklega að horfa til þeirra sem ætla að leggja tónlistina fyrir sig.