144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

málefni tónlistarmenntunar.

[11:33]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir frumkvæðið að umræðunni.

Þrátt fyrir að við séum öll sammála um mikilvægi tónlistarskólanna í íslensku þjóðfélagi í gegnum marga áratugi hefur lengi verið vandræðagangur í kringum rekstur þeirra. Framan af var aðgangur mjög misjafn og oft minni aðgangur að tónlistarmenntun í dreifðari byggðum landsins.

Nú hefur það kannski að einhverju leyti snúist við fyrir grunnskólanemendur þar sem flestallir grunnskólanemendur hafa síðustu áratugi haft mjög góðan aðgang að tónlistarskólum. Vandræðagangurinn hefur orðið í kringum námið á framhaldsstiginu og þegar framhaldsskólanemendur, sem þurfa að fara á milli sveitarfélaga vegna bóknáms, þurfa að færa sig á milli skóla.

Þetta leiddi til samkomulagsins frá 2011, sem komið hefur verið inn á hér í dag, og á þingi sl. vor voru samþykktar breytingar á lögum vegna enn einnar framlengingar á gildistíma samkomulags ríkis og sveitarfélaga um tímabundna breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í kjölfar samkomulags um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Mér finnst þessi setning eiginlega lýsa vandræðaganginum og við verðum að fara að komast út úr þessu.

Með leyfi forseta langar mig að vitna í nefndarálit allsherjar- og menntamálanefndar frá afgreiðslu málsins í vor, en þar kom fram sá skilningur að það hafi verið skýrt af hálfu ríkisvaldsins að um viðbótarfjármagn var að ræða sem átti að efla tónlistarnám á framhalds- og miðstigi þegar samkomulagið var gert 2011. Það er löngu kominn tími til að fundin verði ásættanleg lausn og varanleg niðurstaða varðandi fjármögnun tónlistarnáms í stað tímabundinna lausna þar sem skýrt verður hvar ábyrgðin liggur, það er aðalatriðið.