144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

málefni tónlistarmenntunar.

[11:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er alltaf feginn því þegar ég hef tvö sæti í þessari umræðu vegna þess að tíminn er svo stuttur.

Mig langar að halda aðeins áfram með það sem ég ræddi áðan og sérstaklega það sem viðkemur útlendingum og ferðaþjónustu. Það er nefnilega þannig að ferðamenn koma ekki bara til Íslands til að sjá okkar undurfögru náttúru, sem að vísu er líka mjög fögur í Noregi ef út í það er farið, þeir koma oft hingað til að upplifa hina undurfögru íslensku menningu, tónlistina, tunguna, álfa o.s.frv. Það er margt sérstakt við Ísland sem útlendingar sækja í. Þeir öðlast áhuga á fyrirbærinu sem er Ísland. Tónlistin er veigamikill þáttur í því að dreifa vitund um okkar litlu krúttlegu þjóð.

Sem dæmi þegar ég var kominn heim frá Winnipeg í Kanada og var að tala við vin minn yfir netið þá spurði hann hvort ég hefði heyrt um hljómsveitina Of monsters and men. Ég sagðist einhvern tímann hafa heyrt um hana. Við fórum að ræða þetta og þá kom í ljós að hann hafði ekki hugmynd um að þetta væri íslensk hljómsveit, sem mér þótti afskaplega fyndið vegna þess að ég tók því sem vísu að hann væri að benda á hljómsveitina vegna þess að ég er íslenskur og hann vissi það vitaskuld. Íslensk tónlist á mikið erindi út í heim. Hún hefur mikið að segja um áhuga útlendinga á Íslandi; í fyrsta lagi um meðvitund um tilvist okkar og í öðru lagi hvað þetta er mögnuð menning að mörgu leyti.

Mér þykir mikilvægt að við höfum í huga þegar við tökum ákvarðanir um fjárútlát í þessum málum að við sjáum ekki gróðann neins staðar á blaði, við sjáum ekki endilega á einhverjum reikningi eða í einhverjum tölum hvernig íslenskur ferðamannaiðnaður blómstrar í kjölfar þess að við eyðum meiri peningum í tónlistarkennslu. Við getum í skásta falli fundið einhverja tölfræði sem (Forseti hringir.) gæti gefið okkur vísbendingar um þetta. Mér þykir mikilvægt að við höfum það í huga (Forseti hringir.) að þetta eru verðmæti, þetta er þess virði. Við eigum að líta á þetta sem mikilvægan málaflokk.