144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

lögreglulög.

372. mál
[12:38]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem fyrrverandi stjórnarmanni í Landssambandi lögreglumanna árið 2011, þegar hv. þingmaður var þá hæstv. fjármálaráðherra, kemur mér ekki á óvart stuðningur hans við að lögreglumenn fái verkfallsrétt sinn aftur til baka þar sem hv. þingmaður lýsti því eindregið yfir í þeim viðræðum sem hann kom réttilega inn á og voru eftir gerðardóminn. Óánægja lögreglumanna með gerðardóminn fólst í því að þau tæki sem lögreglumenn fengu fyrir verkfallsréttinn á sínum tíma voru ekki nýtt við gerðardóminn. Því urðu þessir samningar. Í þeim samningum var gert samkomulag, sem var undirritað af þáverandi fjármálaráðherra og fyrir hönd innanríkisráðuneytisins var það líka undirritað, þar sem verkfallsréttarins var getið. Hans var getið þar eftir samtöl í þeim viðræðum. Þar gátu lögreglumenn ekki skilið það öðruvísi en svo að það ætti að vera lítið mál að ganga frá verkfallsréttinum, og eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni ætti það ekki að vera nema sjálfsagður hlutur og réttindi hverra starfsstétta, en hefur ekki virkað sem skyldi. Var það liður í því samkomulagi sem náðist við lögreglumenn í nóvember 2011 ef ég man rétt.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvað varð til þess að hann sem fjármálaráðherra á þeim tíma gat ekki uppfyllt þetta samkomulag og af hverju er það ekki fyrr en núna sem hann telur að það sé mögulegt?