144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

lögreglulög.

372. mál
[12:46]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 1. flutningsmanni þessa máls fyrir að leggja það fram. Ég tel að þetta sé mikilvægt mál og eigi rétt á góðri umræðu og góðri meðferð hér í þinginu.

Til þess að gæta sannmælis er það rétt sem fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það var óvanalegt að stjórnvöld skyldu sýna þennan sveigjanleika en nauðsynlegt og ber að þakka fyrir það, margt jákvætt náðist þar fram.

Með fyrirspurn minni til hv. þingmanns var ég að leita eftir því hvort eitthvað hefði staðið í veginum sem við þyrftum að búa okkur undir núna að hefði breyst, sem við þyrftum þá að hafa í huga til að ná fram þessum óskum lögreglumanna sem við höfum sammælst um að séu þarfar, réttlátar og nauðsynlegar.

Ég hef frá því áður en ég kom inn á þing stutt það að lögreglumenn fái verkfallsrétt sinn aftur. Það er óeðlilegt að þeir séu ein fárra stétta sem ekki hafa verkfallsrétt, þó að hann yrði háður takmörkunum eins og hér kom fram. Það er líka út af sögu kjaramála lögreglumanna eftir að samið var um að fella verkfallsréttinn brott. Það er rétt að samið var um að fella hann brott gegn vissum launahækkunum og vissum úrbótum eða breytingum sem áttu að verða á fyrirkomulaginu.

Það er eins og oft í samstarfi stjórnvalda og annarra aðila að þá gangast stjórnvöld ekki alltaf við því sem þau hafa samið um og allan tímann hefur gengið mjög erfiðlega að fara eftir því samkomulagi sem gert var. Oftast hefur það verið vegna þess að fjármálaráðuneytið á hverjum tíma hefur verið tregt til að gefa upplýsingar og afla þeirra upplýsinga sem þarf til að reikna út rétta kjaralega stöðu lögreglumanna. Því hafa þessir viðmiðunarsamningar, sem áttu að koma í staðinn fyrir verkfallsréttinn, ekki virkað.

Bókun á kjarasamningi var því breytt 2001 og sett inn ákvæði um gerðardóm sem við höfum verið að ræða hér. Þar áttu lögreglumenn að geta farið fram á að óháður aðili tæki út kjaralega þróun og leggja átti það fram sem gagn fyrir gerðardóm. Þá kom aftur að klækjum fjármálaráðuneytisins eða samninganefndarinnar og það úrræði var skemmt. Þar af leiðandi hefur þetta aldrei virkað vegna þess að annar samningsaðilinn hefur ekki staðið við sitt. Sú túlkun olli þessari miklu óánægju hjá lögreglumönnum með niðurstöðu gerðardómsins, þar sem þau gögn sem niðurstaða hans byggðist á voru ekki samkvæmt samkomulaginu eins og lögreglumenn höfðu skilið það. Gögnin voru lögð fram eins og fjármálaráðuneytið skildi samkomulagið, þ.e. að bera ætti saman kjaralega þróun lögreglumanna frá því að síðasti kjarasamningur var gerður en ekki yfir lengra tímabil eins og lögreglumenn höfðu farið fram á í kjarasamningunum þar á undan.

Hið óháða mat fór því ekki fram þar sem fjármálaráðuneytið sagði að beiðnin væri of seint fram komin. Það eru náttúrlega vinnubrögð sem ekki er hægt að bjóða heilli stétt upp á í samningaviðræðum og þetta þarf að laga. Þetta er ástæða þess að ég get stutt það, og er algjör forsenda þess, að lögreglan fái þennan rétt aftur ásamt því að þetta eru sjálfsögð atvinnuréttindi, það eru réttindi hvers manns að geta barist fyrir launum sínum, svo að jafnræðis sé nú gætt milli allra fagstétta og aðila á vinnumarkaði.

Það er mjög mikilvægt að sagan sé höfð að leiðarljósi þegar þessi krafa er höfð uppi. Ég tel mikilvægt að lögreglumenn fái verkfallsrétt aftur. Vonandi gerist það núna í kjarasamningunum að samið verði á þann veg að þeir fái þennan rétt aftur. Þar á þetta að vera hægt.

Annars vil ég fagna þessu aftur og þakka fyrir það að málið sé komið fram.