144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

laun forseta Íslands.

77. mál
[13:31]
Horfa

Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um laun forseta Íslands, nr. 10/1990 (laun handhafa). Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Svandís Svavarsdóttir.

1. gr. frumvarpsins hljóðar svo:

„1. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: Handhafar forsetavalds skv. 8. gr. stjórnarskrárinnar skulu samanlagt njóta sem svarar til eins tíunda hluta launa forseta þann tíma sem þeir hverju sinni fara með forsetavald um stundarsakir.“

2. gr.:

„Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2015.“

Sambærilegt mál hefur verið flutt áður og þá var það efnahags- og skattanefnd sem flutti frumvarp á 137. löggjafarþingi. Var Magnús Orri Schram framsögumaður málsins. Annað frumvarp til laga um breytingu á lögum um laun forseta Íslands var flutt á síðasta þingi, 143. löggjafarþingi, af Árna Þór Sigurðssyni. Hvorugt málið var tekið til efnislegrar meðferðar.

Það er þannig í dag að samkvæmt 7. gr. laga um laun forseta Íslands skulu handhafar forsetavalds samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar samanlagt njóta jafnra launa og laun forseta eru þann tíma sem þeir hverju sinni fara með forsetavald um stundarsakir og skulu launin skiptast að jöfnu á milli þeirra. Byggist það á 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir að ákveða skuli með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra sem fara með forsetavald. Með frumvarpinu er lagt til að þessar launagreiðslur handhafanna verði lækkaðar verulega frá því sem nú er.

Samkvæmt heimildum mínum hafa þessar greiðslur numið um 10 millj. kr. á ári sl. fimm ár á núverandi verðlagi og mundu, ef þetta frumvarp yrði samþykkt, lækka í um það bil 1 millj. kr. á ári, þ.e. ef störf handhafanna verða áþekk því sem verið hefur.

Ástæðan fyrir því að ég legg þetta frumvarp fram og legg til þessa lækkun er sú að störf handhafa forsetavalds eru að mestu takmörkuð við lögbundin störf, þ.e. staðfestingu laga, þegar forseti Íslands er erlendis, en ekki heimsóknir, móttökur, setningarávörp eða annað slíkt sem felst í störfum forsetans. Vinnuframlag handhafa forsetavalds er í rauninni mjög lítið og launin þá ríkuleg að sama skapi.

Það sem hins vegar flækir svolítið þetta mál og ástæðan fyrir því að lagt er til að þeir njóti eins tíunda hluta launa forseta — í dag er það þannig að launum forseta í heild sinni er deilt niður á þessa þrjá handhafa forsetavaldsins þegar forsetinn er erlendis — er sú að ágreiningur er um það og jafnvel talið óheimilt vegna ákvæða 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar að fella þessar greiðslur niður með öllu. Þess vegna förum við þá leið að leggja til að þær verði lækkaðar verulega.

Breytingin hefði í för með sér sparnað í rekstri forsetaembættisins sé litið til heildarútgjalda. Það er mat okkar að í ljósi kröfu um hagræðingu og sparnað í ríkisrekstri sé eðlilegt að þeir aðilar sem fara með forsetavald í fjarveru forseta gangi fram með góðu fordæmi og taki á sig launaskerðingu þar sem raunverulegt vinnuframlag viðkomandi aðila er ekki í samræmi við þær greiðslur sem ríkið innir af hendi vegna þessa.

Auðvitað er gert ráð fyrir því eftir sem áður að handhafar forsetavalds fái greiddan útlagðan kostnað vegna starfans eins og kveðið er á um í 2. mgr. 7. gr. laganna.

Þetta með að ekki sé heimilt að fella laun handhafanna alveg niður er umdeilt meðal fræðimanna, þ.e. hvort ákvæðið taki jafnframt til launa handhafa forsetavalds, enda eru þeim ákvörðuð laun á öðrum forsendum en forseta vegna lögbundinna hlutverka. Þeir fylgja ekki sama kjörtímabili og forseti. Til dæmis starfar einn handhafinn, forseti Hæstaréttar, alfarið óháð kjörtímabilum. Það var aðeins í umræðunni þegar málið var flutt á fyrri stigum að þetta þyrfti að gerast þegar nýr forseti tekur við völdum, þetta væri háð kjörtímabili hans, en ég skal ekki segja um það. Eitt kemur í ljós þegar maður fer að grufla í þessu máli og það er hvað kaflinn um forseta Íslands er óskýr í stjórnarskránni, og að það séu í rauninni deilur um þetta. Það finnst manni kannski gefa enn frekar tilefni til að stjórnarskráin verði endurskoðuð, sérstaklega þessi kafli um forseta Íslands. Hann er einfaldlega allt of óskýr.

Mörgum kann að finnast að 10 milljónir séu ekki mikið fé í stóra samhenginu, það eru þær upphæðir sem við teljum að mundu sparast verði þetta að lögum, en 10 milljónir gætu víða nýst vel. Við vorum síðast í morgun að tala um tóman túlkasjóð. Þangað vantar nokkrar milljónir og mér hefur orðið tíðrætt um mikilvæg samtök á Akureyri sem heita Aflið og fá 2,5 milljónir úr ríkissjóði og munar um hverjar 100 þús. kr.

Staðan í dag er þannig að 10 milljónir fara til handhafanna sem í sjálfu sér eru ekki að vinna sér þær inn. Þetta eru bara leifar gamalla tíma og þetta eru að mínu mati bitlingar sem eiga ekki rétt á sér í dag.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég vona að málið fari í umsagnarferli, það hefur ekki gerst áður í þau tvö skipti sem málið hefur verið flutt. Það væri fróðlegt að fá umsagnir frá þeim sem hafa skoðun á málinu.