144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[14:35]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að bjóða hæstv. forsætisráðherra velkominn til umræðunnar þó að hann ætli bara að fylgjast með úr hliðarsal. Við höldum þá áfram umræðu um að mínu mati mjög stórt mál sem varðar mjög stórar upphæðir og í mínum huga alls konar lykilspurningar, eins og hvert hlutverk ríkisvaldsins sé. Hvað á ríkið að gera? Hvernig á ríkið að fara með skattfé? Hvaða væntingar höfum við til ríkisins?

Þingmenn Bjartrar framtíðar hafa verið á móti þessum skuldaleiðréttingaráformum í öllum atkvæðagreiðslum sem um þau hafa verið í þingsal. Við lýstum efasemdum okkar um þessa leið í síðustu kosningabaráttu. Þá var raunar eitt lykilatriðið í umræðunni að því var ítrekað haldið fram að svona aðgerðir mundu kosta ríkissjóð mjög mikið. Þá var svarið frá núverandi forsætisráðherra ævinlega að það væri algjör vitleysa, þessar aðgerðir mundu ekkert kosta ríkissjóð, þessir peningar væru ekki skattfé, þeir kæmu einhvers staðar annars staðar að. Mér finnst ein stærstu tíðindin í þessum aðgerðum þau að þetta er rangt. Þetta er ríkisfé. Það á að fara að deila út ríkisfé. Það þýðir að af þessum aðgerðum er mjög mikill fórnarkostnaður. Það er mjög margt annað sem hægt er að gera fyrir þetta fé. Mér finnst það svolítið merkilegt að stjórnarflokkarnir skuli ekki upplifa þá æpandi þörf sem er í samfélaginu fyrir fjármuni fjárfestingar.

Hér varð gríðarlegt efnahagshrun og halli á ríkissjóði upp á eina 200 milljarða. Ríkið varð að setja til hliðar mörg af grundvallarverkefnum sínum, halda úti góðum spítala og halda honum við, heilbrigðiskerfinu yfir höfuð, halda við góðu menntakerfi, halda samgöngukerfinu við, löggæslunni, fjarskiptunum. Ríkið varð að taka á sig ógnarstórar skuldbindingar þannig að vaxtagreiðslur eru núna einn stærsti kostnaðarliðurinn í ríkisreikningnum. Ríkið varð sem sagt fyrir verulegum skakkaföllum í því verkefni sínu að halda úti grunnþjónustu á Íslandi.

Ég skal segja hvað ég vonaði. Ég vonaði að hrunið yrði þannig að það yrðu nokkur mögur ár, yrðu þessir erfiðleikar en síðan mundi birta til. Síðan sæjum við tekjur koma inn í ríkissjóð og upplifa það að öllu þessu fólki sem starfaði í velferðarkerfinu og menntakerfinu, í grunnþjónustunni hér á landi á vegum hins opinbera, yrði launað fyrir erfiði sitt, að það sæi að það tímabil að taka á sig gríðarlega skerðingu í þjónustu á Landspítalanum og frestun á viðhaldi á vegum og frestun á því að kaupa alls konar mikilvæga hluti inn í skólakerfið og halda þar við byggingum mundi einhvern tímann enda, peningar kæmu inn og ríkisvaldið gæti aftur farið að sinna þessu hlutverki sínu af þeirri festu sem því ber. Peningarnir kæmu, það yrði endurreisn, það yrði haldið áfram að byggja upp. Þetta vonaði ég.

Mér fannst svolítið merkilegt að í eftirleik hrunsins settist fullt af fólki niður og gerði áætlanir um það hvernig þyrfti að byggja upp eftir þessi gríðarlega miklu skakkaföll. Það voru gerðar sóknaráætlanir allra landshluta þar sem veikleikar og styrkleikar voru skilgreindir, fólk í skapandi greinum gerði áætlanir um hvernig væri hægt að byggja upp þann geira atvinnulífsins þannig að ungt fólk fengi fjölbreytt atvinnutækifæri, fólk í hugverkaiðnaði, nýsköpun og rannsóknum. Fólk innan háskólanna gerði alls konar áætlanir um það hvernig hægt væri að haga uppbyggingu í hinu nýja Íslandi.

Við í Bjartri framtíð stóðum að fjárfestingaráætlun um uppbyggingu á öllum þessum innviðum eftir þessi erfiðu ár. Til þess átti meðal annars að verja peningum sem koma núna inn sem arðgreiðslur úr viðskiptabönkunum af eignarhlut ríkisins í þeim. Þetta stóð til. Þetta var í mínum huga ljósið við endann á göngunum. En hvað gerðist? Það urðu kosningar og Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn komust í ríkisstjórn.

Það var hætt við nánast öll þessi áform. Sóknaráætlun var blásin af, fjárfestingaráætlun líka og ekkert annað en þessi skuldaleiðrétting virðist komast að í aukaútgjöldum. Við heyrum núna að arðgreiðslurnar úr viðskiptabönkunum eiga að fara í skuldaleiðréttinguna til þess að spara 7 milljarða í aðgerðinni sjálfri. Og í hvað fara þeir milljarðar? Í skuldaleiðréttinguna.

Svo spyr maður hæstv. fjármálaráðherra: Hvað gerist ef bankaskatturinn skilar ekki tekjum í fjögur ár eins og líklegt er ef búin verða gerð upp eins og stefnt er að? Jú, þá á kannski að myndast eitthvert svigrúm í hrakvirði eigna sem ríkið getur þá yfirtekið og selt og myndað þannig eitthvert svigrúm í ríkisrekstrinum. Í hvað fara þeir peningar? er þá spurt. Jú, í skuldaleiðréttinguna. Það á allt að fara í skuldaleiðréttinguna.

Hvað hugsar núna allt það fólk sem lagði á sig mikla vinnu við að koma hinu opinbera kerfi, velferðarkerfinu öllu saman, grunnstoðunum, í gegnum hrunið? Hvenær á að fara í að byggja þetta allt saman upp eftir mögru árin? (Gripið fram í.) Á uppgangurinn ekkert að nýtast þessum grunnstoðum samfélagsins? Við þeirri spurningu vantar átakanlega svar. Þar ríkir bara stefnuleysi. Það er bara sagt eitthvað. Það eru til dæmis engar áætlanir um uppbyggingu á Landspítalanum. Það er sagt að mögulega verði farið í þær einhvern tímann, en áætlanir liggja ekki fyrir. Áætlanir hafa þvert á móti verið blásnar af. Þetta er alvarlegt.

Þessar aðgerðir þýða í mínum huga algjört stílbrot á því sem ætti að vera grunnhlutverk ríkisins. Mér finnst þurfa að ræða það hvað ríkið eigi að gera. Á ríkið ekki að sjá til þess að samgöngukerfið sé gott? Vegirnir eru í krítísku ástandi á Íslandi núna. Á ríkið ekki að sjá til þess að heilbrigðiskerfið sé gott? Á ríkið ekki að sjá til þess að menntakerfið sé gott? Hæstv. menntamálaráðherra kemur ítrekað í pontu og talar um að íslenska menntakerfið sé að dragast aftur úr. Þarf ekki að hafa áhyggjur af því? Er ekki forgangsmál að kippa því í liðinn? Er löggæsla ekki forgangsmál líka? Almannatryggingakerfið? Er þetta ekki hlutverk ríkisins?

Ef ríkið segir núna að allir þeir peningar sem koma inn eftir mögru árin eigi að fara í að greiða niður skuldir einstaklinga, sem þeir tóku sjálfir vitandi vits, þýðir það að það er búið að gjörbreyta hlutverki ríkisvaldsins á Íslandi. Þá þurfum við að ræða það hver eigi að sjá um spítalana. Hver á að sjá um vegina? Hver á að sjá um menntakerfið? Þessar spurningar þarf þá að ræða. Þessum spurningum þurfa framsóknarmenn að svara í þingsal. Þetta er stórt og alvarlegt mál.

Mér fannst líka í eftirleik hrunsins gjörsamlega augljóst að það þyrfti að grípa til yfirgripsmikilla aðgerða vegna skuldavanda heimilanna. Það fannst mér augljóst mál. Verkefni ríkisvaldsins í þeim kringumstæðum var að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna og fyrirtækjanna. Það þurfti að gera það, þurfti að fara í markvissar aðgerðir til að koma í veg fyrir það. Og viti menn, það tókst. Það varð ekki yfirgripsmikið fjöldagjaldþrot heimila á Íslandi. Það fóru 300 milljarðar í það héðan og þaðan úr fjármálakerfinu og ríkiskassanum til að koma í veg fyrir þetta krítíska ástand á Íslandi. Heimilin réttu sig við.

Það eru önnur tíðindi í þessu sem mér finnst vera svolítið merkileg stjórnmálafræðilega, að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur hægri flokkur. Hann getur ekki kallað sig hægri flokk. Hverju hefði mátt treysta, ekki síst fyrir hægri menn, í eftirleik hrunsins? Því að markaðurinn mundi rétta sig af, það kæmu betri tímar. Og hvað hefur gerst? Jú, ekki síst vegna þess að það tókst að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrotið hefur markaðurinn komið til bjargar. Hæstv. fjármálaráðherra stærir sig af því að þessar aðgerðir (Forseti hringir.) muni koma skuldastöðu heimilanna undir 100%. (Forseti hringir.) Skuldir heimilanna eru þegar komnar í 97% af landsframleiðslu án þess að aðgerðirnar séu farnar af stað.

Lokaspurningin í þessu er auðvitað: Hafa sjálfstæðismenn ekki lengur trú á markaðnum? Það blasir við.