144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[15:03]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég held að full ástæða sé til þess að gleðjast yfir því að nú höfum við séð almenna leiðréttingu á húsnæðisskuldum heimilanna komna til framkvæmda. Ástæða er til að gleðjast yfir þeirri meginhugsun sem þar er, þ.e. að skattleggja þrotabú föllnu bankanna með því að setja inn skattstofn sem var undanskilinn af fyrri ríkisstjórn og nota það fjármagn meðal annars til að leiðrétta verðtryggðar skuldir heimilanna, fólks sem sannarlega varð fyrir forsendubresti.

Það er svolítið spaugilegt að fylgjast hér með stjórnarandstöðunni hvernig hún er í þessu máli því að maður skynjar ákveðinn biturleika yfir því að þetta sé nú komið til framkvæmda. Mörgu hefur verið haldið fram í umræðunni, margar fullyrðingar látnar fljúga sem engan veginn standast skoðun. Ég ætla rétt aðeins að drepa á tvær þeirra.

Annars vegar hefur því verið haldið fram að átt hafi að leiðrétta skuldir um 300 milljarða kr. Þetta kom meðal annars fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar í gær. En staðreyndin er sú að það sem haft hefur verið beint eftir Framsóknarflokknum og hæstv. forsætisráðherra er að það svigrúm sem kann að myndast geti verið allt að 300 milljarðar, og ég hallast að því að það geti orðið stærra. En markmið okkar var að leiðrétta þann forsendubrest sem heimilin urðu fyrir. Eins og þetta er sett upp erum við að leiðrétta að því sem nemur yfir 4% verðbólguþaki. Það vill svo til að það er einmitt það þak sem var barist fyrir á síðasta kjörtímabili. Undirskriftasafnanir voru, stórir fundir, áskoranir, stofnuð voru um þetta heil samtök, og það var akkúrat þetta 4% þak sem þá var talað um. Við erum því að leiðrétta þann forsendubrest sem kallað var eftir allt síðasta kjörtímabil.

Einnig hefur því verið haldið fram og kom líka fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar hér í gær, sem virðist vera sérstakur talsmaður Samfylkingarinnar, að ekkert væri gert fyrir fólk sem væri á leigumarkaði. Það vill svo til að þessi aðgerð snýr að því að leiðrétta verðtryggðar húsnæðisskuldir heimilanna. Ríkisstjórnin er að vinna að málefnum leigjenda. Þar eru væntanleg frumvörp. En það er eins og að kasta steini úr glerhúsi að þetta skuli koma frá þingmanni Samfylkingarinnar. Hverjir hafa haldið á þessum málaflokki undanfarin ár? Samfylkingin tók við málefnum leigjenda og húsnæðismála árið 2007, voru með þau árið 2008, árið 2009, 2010, 2011, 2012 og hálft árið 2013.

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ætlar að taka á málefnum leigjenda. Það eru væntanleg frumvörp þar að lútandi. Samfylkingin sem hélt á þessum málaflokki og hefur haldið á honum allt frá árinu 2007 þarf því ekki að hafa áhyggjur af því að það verði ekki líka tekið á þeim málaflokki eins og tekið hefur verið á verðtryggðum skuldum heimilanna.

Einnig hefur því verið haldið fram að það séu helst tekjuhærri heimilin sem fái þessa leiðréttingu. Það hefur verið hrakið, bæði hér í ræðum í dag, í greinum og kynningum sem þessu fylgja. Staðreyndin er hins vegar sú að 110%-leið fyrri ríkisstjórnar, og ég er ekki að segja að sú leið hafi verið algerlega galin, en ég er að segja að það kemur úr hörðustu átt þegar núverandi aðgerðir eru gagnrýndar frá þeim sem lögðu þær aðgerðir fram. Í 110%-leið fyrri ríkisstjórnar voru það aðallega tekjuhæstu heimilin sem fengu leiðréttingu. Hún nýttist aðeins 10% heimila landsins. Um 1% þeirra heimila hrepptu um helming niðurfærslunnar, eða rúmlega 20 milljarða kr. (Gripið fram í: Hver greiddi?) Hver greiddi, grípur hv. þingmaður inn í? Það voru m.a. stofnanir eins og Íbúðalánasjóður og Landsbankinn sem eru að fullu í eigu ríkisins, kæri þingmaður.

Þessi 775 heimili fengu hvert yfir 15 millj. kr. niðurfærslu (Gripið fram í: … borgar þessa skuldaniðurfærslu?) og var að meðaltali niðurfærsla um 26 millj. kr. — Nú spyr hv. þingmaður hver borgar þessa skuldaniðurfærslu sem hér um ræðir? Mér er sérstaklega ljúft að fara (Gripið fram í.) yfir það.

Staðreyndin er að núverandi ríkisstjórn er að leggja sérstakan skatt á þrotabú föllnu bankanna sem fyrri ríkisstjórn (Gripið fram í.) ákvað meðvitað (Forseti hringir.)(Gripið fram í: Lygi.) undanskilja. — Hér grípur hv. þingmaður inn í og segir lygi. Í viðtali á Sprengisandi á sunnudaginn sagði flokksfélagi hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur að það hefði verið hægt að leggja skatt á þrotabú föllnu bankanna árið 2013, það hefði verið hægt. Er sá ágæti þingmaður þá að fara með rangt mál? (Gripið fram í.) Staðreyndin er að ríkisstjórnin er að leggja skatt á þrotabú föllnu bankanna og notar það fjármagn til að leiðrétta húsnæðisskuldir heimilanna. Ég er gríðarlega stoltur yfir þessari stefnubreytingu vegna þess að fyrri ríkisstjórn var einkum í því að reyna að leggja skuldir þrotabúa á hendur almennings í þrígang með Icesave-samningunum.