144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[15:48]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða um skuldaleiðréttinguna. Það kemur margt mjög jákvætt fram í umræðum hérna. Það er gaman að hlusta á hv. þingmenn fara yfir málið. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir sagði: Það er margt gott í þessum aðgerðum. Tónninn er að snúast.

Það er ekki annað hægt en að vitna hér í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals, en hann skilaði mjög vel ígrunduðu og rökstuddu séráliti við lagafrumvarpið um skuldaleiðréttinguna. Ég ætla að fá að vitna í hann, með leyfi forseta:

„Niðurstaðan er ljómandi góð. Skuldsetning heimila er of mikil. Hún er of há og heimilin verða betur í stakk búin til að mæta áföllum í framtíðinni.“

Þetta er mikilvægur punktur. Þess vegna fer ég með hann aftur og þetta er algjörlega í samræmi við stóra markmiðið með þessari leiðréttingu. Það er nefnilega þannig að grundvallarefnahagseiningar hagkerfis okkar sem mynda efnahagshringrás eru heimili og atvinnulíf eða fyrirtæki. Þetta skiljum við og þekkjum. Þetta eru grunnstoðir efnahagshringrásar. Skuldaleiðréttingin er staðfesting á því hlutverki ríkissjóðs að virða og styðja þessar grunnstoðir. Að liðka til fyrir þeirri hringrás sem þar fer á milli, hringrás efnislegra verðmæta og peninga. Ef heimilin eru yfirskuldsett virkar sú stoð í hringrásinni síður og þá höktir þessi hringrás. Þá skerðist okkar miðlægi félagslegi grunnur sem ríkissjóður á og þarf að vera.

Virðulegi forseti. Ég hef alltaf stutt þá hugmyndafræði út frá þeim sérstöku aðstæðum sem grundvallar þessa aðgerð að koma til móts við og forgangsraða í þágu heimila til þess að tryggja að efnahagshringrásin virki. Það er ekki svo að ríkissjóður eigi sér sjálfstæða tilvist eða byggi á einhverri hlutlausri verðmætapípu. Nei, fjármunir okkar renna í þennan sameiginlega sjóð frá atvinnulífinu og frá heimilum. Ég kýs að horfa einfalt á þetta og á því grundvallast hugmyndafræðin á bak við skuldaleiðréttinguna.

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson og fleiri hv. þingmenn hafa nefnt orðið „fórnarkostnaður“. Hárrétt. Allar okkar ákvarðanir fela í sér fórnarkostnað. Að gera ekki neitt felur líka í sér fórnarkostnað. Sú staðreynd vill gleymast þegar við tölum um pólitíska forgangsröðun. Þetta er efnahagsleg aðgerð og hún er studd þessum rökum.

Hvert ætti svo hlutverk fjármálastofnana að vera? Það er að styðja við þessa hringrás og efla hana með ábyrgum lánveitingum, atvinnulíf og heimili, ekki soga til sín fjármuni í formi vaxta heldur bera eðlilega ávöxtun af því starfi að efla hringrásina.

Hæstv. forsætisráðherra fór vel yfir það í skýrslu sinni og ræðu í gær og útskýrði hvernig há skuldsetning heimila dregur úr krafti atvinnulífsins og stíflar eðlilega hringrás verðmæta og þá ósanngirni sem birtist í geigvænlegri útlánaþenslu í aðdraganda hruns.

Virðulegi forseti. Hinir sömu og gagnrýna hvað harðast þessar aðgerðir viðurkenndu allan tímann vandann. Ýmsar leiðir voru farnar, sem margir hv. þingmenn í þessari umræðu hafa farið yfir, og auðvitað hafa þær að einhverju marki leitt okkur í þann farveg sem endaði eða hafði a.m.k. áhrif á að við fórum í þessa vegferð, þá lausn sem við erum að fara yfir hér og nú. Að sama skapi hefur þrautseigja þjóðarinnar fleytt okkur í gegnum þrengingar og á þann stað sem við erum á í dag og hefur áhrif á niðurstöðuna sem við erum að ræða.

Eins og hæstv. forsætisráðherra fór vel yfir í inngangsræðu sinni hefði verkefnið verið einfaldara árið 2009, en hugmyndafræðin hefur lifað og ákalli þjóðarinnar sem birtist í síðustu kosningum hefur verið svarað með aðgerð sem skiptir fjölmörg heimili miklu máli. Það birtist í því að mörg hver geta náð allt að 20% höfuðstólslækkun með því að nýta sér bæði leiðréttinguna og séreignarsparnaðarleiðina. Þá er ekki síður mikilvægt að samspil aðgerðanna mun hafa jákvæð heildaráhrif á hagkerfið.