144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[16:12]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í ræðu þáverandi hv. þingmanns Framsóknarflokksins er hann flutti í þingsal þann 7. október 2009, en þar sagði hann:

„Við framsóknarmenn höfum lagt fram tillögur í þessum efnum, við höfðum lagt áherslu á að eitt meðalið sem við höfum til þess að létta byrðum af almenningi sé í gegnum skuldirnar, að reyna að lækka skuldabyrðina, reyna að takast á við höfuðstól lánanna, reyna að leiðrétta þá gríðarlegu hækkun sem varð út af forsendubresti á höfuðstóli lánanna.“

Þessa ræðu flutti hv. þingmaður, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins, Guðmundur Steingrímsson þann 7. október 2009. Miðað við hvaða afstöðu hv. þingmaður hefur til þessara aðgerða núna væri fróðlegt að fá útskýringar á því einhvern daginn hvað hafi breyst. Hvers vegna hefur skoðun hans breyst í þessum efnum?

Svo að við snúum okkur að nútíðinni þá hafa nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar talað um að heimilin hafi ekki orðið fyrir forsendubresti. Þeir segja það vegna þess að í einhverjum tilvikum á einhverjum landsvæðum hefur húsnæðisverð hækkað. Þrátt fyrir að húsnæðisverð sé að hækka hafa lánin ekki lækkað, ekki lán einstaklinganna. Í hruninu hækkuðu lánin og á sama tíma lenti mjög margt fólk í skertu stöðuhlutfalli og margir misstu atvinnuna. Margir þessara einstaklinga fengu enga aðstoð. Margir þessara einstaklinga hafa verið ósáttir, horft upp á mikið fjármagn fara til fjármálastofnana og inn í atvinnulífið. Í þessu samhengi hafa margir þessara einstaklinga komið að máli við þann hv. þingmann sem hér stendur og ekkert skilið hvers vegna þeirra heimili áttu ekki að fá neina hjálp.

Núna, aðeins einu og hálfu ári eftir kosningar, hefur ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar látið verkin tala og komið fram með almennar aðgerðir í þágu heimilanna. Þessi almenna skuldaaðgerð er einungis einn þáttur af tíu í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna. Núna á næstu dögum eru væntanleg frumvörp frá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra er varða leigumarkaðinn og hafa að geyma tillögur í því að koma til móts við fólk á leigumarkaðnum. Einnig hefur hæstv. forsætisráðherra talað fyrir því að á vorþingi verði lögð fram frumvörp um verðtrygginguna.

En snúum okkur að leiðréttingunni. Þessi almenna skuldaniðurfærsla nær til um 91 þús. einstaklinga í gegnum beina niðurfellingu. Meðalfjárhæð leiðréttingarinnar hjá einstaklingum er 1.350 þús. kr. og hjá hjónum 1.510 þús. kr. Hver einstaklingur fær að jafnaði um 1,1 millj. kr.

Eins og fram hefur komið eru aðgerðirnar tvær. Það er 80 milljarða kr. bein niðurfelling sem kemur til framkvæmda í einu lagi, öll upphæðin fer í einu lagi út af láni einstaklinga. Til þess að fjármagna þá aðgerð hefur verið lagður á sérstakur bankaskattur. Það er einstaklega ánægjulegt. Undanþága slitabúa gömlu bankanna frá skattheimtu var afnumin þannig að hægt væri að sækja peninga beint til kröfuhafanna sem eiga þrotabúin. Um er að ræða nýjan tekjustofn þar sem ríkissjóður hefur eingöngu milligöngu.

Ánægjulegt er að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sýni kjark og þor í því að láta þá sem fóru hér ógætilega á fjármálamarkaði, sem olli því að heimili landsins lentu í þeirri stöðu sem þau eru í, að láta þá kröfuhafa og þær fjármálastofnanir borga það til baka.