144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[16:16]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það heyrist gjarnan að þetta sé ein stærsta efnahagsaðgerð sem gerð hefur verið. Ég held að þeir sem segi það muni ekki eftir þeim tíma eða hafi kannski gleymt að lesa um það að hér áður fyrr voru gengisfellingar gerðar með handafli. Ég vonast til þess að þetta verði ekki til þess, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson hefur nefnt, að í framtíðinni verði skuldir heimilanna alltaf lagfærðar með handafli þegar stjórnmálamönnum þóknast svo. Einhverjir eru kannski vísir með að segja að munurinn á þessari aðgerð og gengisfellingum sé sá að þessi aðgerð komi fólkinu til góða, það eigi hins vegar ekki við um gengisfellingar. En það er annar munur líka. Gengisfellingar voru almenn aðgerð en þetta er sértæk aðgerð. Auðvitað er málið samt ekki svo einfalt því að þegar gengið er fellt eða fellur, eins og það gerir núna á markaði, batna kjör í útflutningsatvinnugreininni en kjör fólksins í landinu versna. Það er vegna þess að svo mikið af því sem við kaupum er innflutt. Það verður tilfærsla frá einum hópi til annars.

Þessi efnahagsaðgerð færir peninga úr ríkiskassanum til þeirra sem skulda verðtryggð lán, lán sem tekin voru áður en gengið féll í kjölfar bankahrunsins sem um leið var efnahagshrun. Lánin hækkuðu vegna þess að vísitalan hækkaði og vísitalan hækkaði af því að allur innflutningur hækkaði af því að gengið féll. Svona er þetta allt tengt og verður ekki skilið hvað frá öðru.

Það eru vissulega margir í landinu sem hagnast á aðgerðinni en það eru líka margir í landinu sem hagnast ekkert á henni. Þess vegna er hún óréttlát. Þeir sem eru með verðtryggð lán sem þeir tóku eftir 1. janúar 2010 fá ekki neitt, þeir sem leigja húsnæði fá ekki neitt. Þeir eiga ekkert heimili ef marka má orðræðu talsmanna ríkisstjórnarinnar sem segjast vera að hjálpa skuldugum heimilum. Samt hefur húsaleiga þeirra hækkað í takt við vísitöluna, rétt eins og húsnæðislánin.

Fyrr í vikunni birtist skýrsla frá Hagstofunni. Í henni kemur fram að yfir 28% þeirra barna sem búa á heimilum undir lágtekjumörkum búa í leiguhúsnæði. Forseti, þessi börn njóta einskis af hinni miklu efnahagsaðgerð. Og þeir sem skulda stökkbreytt námslán fá ekki neitt nema þeir skuldi líka stökkbreytt húsnæðislán.

Enginn getur neitað því að hluti millifærslunnar fer til fólks sem vel kemst af án hennar. Hve stór hluti það er liggur ekki ljóst fyrir. Þar klæðir hver tölurnar í þann búning sem hæfir hans málflutningi. Ég held reyndar að slíkur málflutningur sé einmitt ein ástæða þess að fólk hefur litla trú á okkur sem fáumst við stjórnmál. Einn segir þetta og annar hitt.

Síðastliðið haust var samþykkt hér á Alþingi löggjöf sem heimilar gífurlega söfnun gagna um fjárhag okkar allra. Hún átti einmitt að vera til þess að geta ráðist í þessa miklu millifærslu. Samt er aldrei vitnað til þessa gagnasafns. En sá dagur hlýtur að koma, virðulegi forseti, að við fáum óyggjandi og skilmerkilegar upplýsingar um hvernig millifærslan dreifist.

Svo er fólk sem sér ekki út úr skuldafarganinu og vill fara í gjaldþrot. Hér á Alþingi var samþykkt að veita mætti þessu fólki 250 þús. kr. fjárhagsaðstoð fyrir skiptakostnaði af því að það ætlaði í gjaldþrot. 59% þeirra sem sótt hafa um hefur verið synjað um aðstoð. Félags- og húsnæðismálaráðherra, sem átti að setja í reglugerð hvernig ætti að meta fjárhagsaðstöðu umsækjenda, hefur ekki látið svo lítið að setja þessa reglugerð tíu mánuðum síðar. Áhuginn til að koma þessu eignalausa fólki til aðstoðar virðist enginn en fólk sem borgaði auðlegðarskatt fær skuldaniðurfærslu, jafnvel upp á milljónir.

Forseti. Millifærslan sýnir að það eru til peningar í landinu og þetta er eins og alltaf í stjórnmálum spurning um forgangsröðun. Ég tel þetta ranga forgangsröðun og ég vil taka undir með hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur, ég vona að þetta sé einskiptisríkisstjórn.