144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

vinnubrögð í fjárlaganefnd.

[15:06]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með stöllu minni úr fjárlaganefnd, Oddnýju G. Harðardóttur, og mótmæli því að þessi vinnubrögð séu viðhöfð. Í sjálfu sér er ekkert sem segir að málið hefði þurft að fara út úr nefndinni í dag. Við erum búin að óska eftir og fá það samþykkt að fá fulltrúa frá Seðlabanka Íslands á fund á miðvikudaginn til að ræða akkúrat það stóra mál sem hér um ræðir og varðar þá 26 milljarða sem nú eru orðnir 21; og eins þá að fá álit Ríkisendurskoðunar á frumvarpinu eins og vani er.

Málið með Seðlabankann á eftir að fara hér í 1. umr. og því er það í raun óskiljanlegt að þessi asi hafi verið á því að taka frumvarpið út nú í morgun. Fjáraukalagafrumvarpið er að fara til 2. umr. þannig að hitt málið, sem er forsenda þess að hægt sé að samþykkja fjáraukalögin, er ekki komið til 1. umr.

Virðulegi forseti. Þetta eru mjög óvönduð vinnubrögð og óþörf.