144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

vinnubrögð í fjárlaganefnd.

[15:09]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Heyrði ég það rétt frá hv. formanni fjárlaganefndar að við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur, það væri búið að afgreiða málið í fjárlaganefnd og ganga frá pappírum en síðan gætum við fengið að hlusta á þessa aðila seinna áður en frumvarpið yrði lagt fram í þinginu? Ég get ekki undir nokkrum kringumstæðum fallist á það að þetta sé venjuleg málsmeðferð. Það er vika síðan fjáraukalagafrumvarpið kom fram. Það er komið hingað til afgreiðslu, það hefði náttúrlega átt að vera komið fyrir löngu. Við gerum auðvitað kröfu um að fá að fjalla um þær stóru línur sem hér er verið að boða og að við fáum til þess tíma. Það er ekki hægt að hreyta þessu í þingmenn í salnum og segja: Hafið engar áhyggjur af þessu, það er búið að afgreiða þetta, þetta skiptir engu máli, þið fáið að hlusta á Seðlabankann á miðvikudaginn, þetta breytir engu. Þetta eru ekki viðunandi vinnubrögð.