144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[15:12]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki setið á samningafundum með læknum og ég held að hv. þingmaður þekki hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig. Ég held að hv. þingmaður hljóti líka að gera sér grein fyrir því að ráðherrar eins og aðrir hafa áhyggjur af þessu verkfalli. Verkföll almennt geta auðvitað verið mjög skaðleg og verkfall lækna ekki hvað síst. Svoleiðis að vonandi tekst nú að leysa úr þessu eins fljótt og kostur er.

Þetta er hins vegar mál sem er ekki hægt að líta á í einangrun, ekki hægt að líta á þetta óháð stöðu mála almennt á vinnumarkaði. Við hljótum að spyrja hvort hægt sé að mynda einhvers konar almenna sátt og þá má meðal annars spyrja stjórnarandstöðuna en ekki hvað síst aðila vinnumarkaðarins hvort menn líti þannig á að staðan réttlæti breytingar á kjörum lækna, bætur umfram það sem hægt væri að semja um í fyrsta áfanga annars staðar.

Ef niðurstaðan í þessu máli yrði sú að allt færi í uppnám á vinnumarkaði almennt og annaðhvort yrði ekki hægt að semja við aðrar stéttir eða þeir samningar mundu ógna stöðugleikanum og setja verðbólguna aftur á fullan skrið þá mundu allir tapa á því, læknar sem og aðrir. Svoleiðis að við þurfum að finna á þessu lausn og vonandi lausn sem sem víðtækust sátt getur orðið um.