144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég get fullvissað hv. þingmanns um að við fylgjumst að sjálfsögðu vel með þessu máli, hverju skrefi. Það er alrangt sem hv. þingmaður segir, að ég eða einhverjir aðrir ráðherrar höfum gert allt sem við mögulega getum til að sprengja samstarf við aðila vinnumarkaðarins, eins og hv. þingmaður orðaði það. Virðulegur forseti. Það er einfaldlega alrangt. En ef menn vilja eiga gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins hljóta þeir að líta á heildarmyndina. Það hefur nú yfirleitt verið stefnan að líta til heildaráhrifa þegar menn reyna að ná einhvers konar sátt, ég tala nú ekki um þjóðarsátt. Þess vegna hlýtur að vera eðlilegt að spyrja hvort hækkanir hjá læknum umfram það sem samið hefði verið um annars staðar sé til þess fallið að sprengja upp sátt við aðila vinnumarkaðarins, eins og hv. þingmaður orðaði það.