144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

rekstrarhalli Landspítalans.

[15:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt að það árar betur í ríkissjóði nú á árinu 2014 en oft áður og það er fagnaðarefni, örugglega okkur öllum, og vekur væntingar um að við getum farið að verja meiri fjármunum til grunnþátta velferðarkerfisins, þar á meðal heilbrigðiskerfisins. Það er sömuleiðis rétt hjá hv. þingmanni að heilbrigðiskerfið tók á sig verulegar skerðingar í fjárframlögum á síðustu árum. Það lætur nærri að það hafi verið, ef við horfum á Landspítalann, þegar verst var, um 5 milljarðar á einu ári sem segir sig sjálft að gengur alveg gríðarlega nálægt þeirri þjónustu sem þar er veitt.

Þannig háttar til á þessu ári, í fjárlögum þessa árs, að við nýttum ákveðið svigrúm sem gafst, m.a. vegna fyrirsjáanlegs tekjuauka í ríkissjóði á þessu ári, til að bæta verulega í fjárframlög til Landspítalans, um að mig minnir 3 milljarða kr. Árið 2014 er það ár sem hæst fer í fjárveitingum þangað inn. Ég er talsmaður þess að útgjöld stofnana, hvort sem það er Landspítali eða framhaldsskólar, háskólar, umfram fjárlög hvers árs — að það eigi að taka á þeim vanda við fjárlagagerð komandi árs. Ef við förum inn á einum stað í þessum rekstri — og ég held að þetta eigi að vera almenn regla, og ég held að ég geti fullyrt að hana hefur verið reynt að halda í heiðri, að hallarekstur stofnana eigum við að taka fyrir og bæta þar sem við kjósum í fjárlögum komandi árs.

Ég ber vissulega væntingar til þess að hægt verði að taka á í þeim efnum fyrir Landspítalann ásamt öðrum heilbrigðisstofnunum í komandi fjárlögum.