144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

rekstrarhalli Landspítalans.

[15:21]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Ég get alveg tekið undir það að það er betra að taka á hallarekstri stofnana í fjárlögum hvers árs. Því miður hefur það verið tilhneiging, og ekki síst með Landspítalann sem er mjög stór kostnaðarliður í ríkisrekstrinum, að það hefur verið vanáætlað á Landspítalanum ítrekað og síðan tekið á því í fjáraukalögum. Það held ég að sé ósiður og við eigum ekkert að halda því áfram.

Ég vona að ég hafi þá skilið ráðherrann rétt. Hann telur mikilvægt og ætlar að sjálfsögðu að beita sér fyrir því og við munum vonandi sjá það að hallarekstur yfirstandandi árs og fjárþörf spítalans til þess einfaldlega að sinna lögbundinni þjónustu sinni — að þessu tvennu verði þá mætt í fjárlögum fyrir árið 2015. Það skilst mér nú af ummælum forstjóra spítalans að ætti þá samanlagt að vera einir 2,5 milljarðar. Miðað við halla yfirstandandi árs sem er milljarður og er af ýmsum ástæðum — það er út af launabótum sem ríkið ákvað væntanlega og út af því að menn vita til dæmis bara ekkert hvað þeir þurfa (Forseti hringir.) að keyra oft sjúkrabíla og svona ýmislegt sem er bara ófyrirséð. En ég skil þá ráðherrann rétt, að það standi til að koma þessu í gott horf (Forseti hringir.) á fjárlögum næsta árs?